Erlent

Nasa sendir geimfar til sólarinnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svona sér listamaður fyrir sér ferðalag geimfarsins.
Svona sér listamaður fyrir sér ferðalag geimfarsins. Vísir/ohns Hopkins University Applied Physics Laboratory
Geimvísindastofnun Bandaríkjanna Nasa mun í dag kynna áætlanir sínar um að senda geimfar, The Solar Probe Plus, inn í ytra andrúmsloft sólarinnar. Reiknað er með að geimfarinu verði skotið á loft næsta sumar. The Guardian greinir frá.

Upprunalega var stefnt að því að geimfarinu yrðu skotið á loft árið 2015 en var því frestað. Geimfarið er á stærð við bíl og er hannað til þess að þola yfir 1400 gráðu hita. Stefnt er að því að geimfarið komist nær sólu en nokkur annar manngerður hlutur.

Reiknað er með að geimfarið komist í allt að 6,5 milljón kílómetra fjarlægð frá sólinni sem kann í fyrstu að hljóma eins og töluverð vegalengd. Þegar haft er í huga að jörðin er í um 150 milljón kílómetra frá sólinni er þó ljóst að geimfarið mun komast mjög nálægt sólinni.

Tilgangur geimfarsins er meðal annars að rannsaka geimveður og svokallaðar kórónuskvettur sem eru útkast efnis úr kórónu sólar - gríðarstórar gasbólur sem springa út frá kórónunni.

Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að kórónuskvetta geti innihaldið allt að tíu milljarða tonna af efni og ef það stefni í átt til jarðar, verði til miklir segulstormar með tilheyrandi norðurljósasýningu. Skelli kórónuskvetta á jörðina verður segulstormur sem getur meðal annars valdið rafmagnsleysi og skemmt fjarskiptagervitungl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×