Erlent

Comey mun bera vitni hjá öldungadeildinni um samskipti sín við Trump

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump og James Comey.
Donald Trump og James Comey. vísir/getty
James Comey, fyrrverandi forstjóri Bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, mun bera vitni hjá öldungadeild Bandaríkjaþings í næstu viku og staðfesta þar ásakanir þess efnis að Donald Tump, Bandaríkjaforseti, hafi þrýst á hann um að hætta rannsókn á meintum tengslum ráðgjafa forsetans við Rússa.

Frá þessu er greint á vef CNN og haft eftir ónafngreindum heimildarmanni sem þekkir til málsins. Endanleg dagsetning vitnisburðarins liggur ekki fyrir en Comey mun koma fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar sem rannsakar tengslin sem grunur leikur á að hafa verið á milli einstaklinga sem komu að kosningabaráttu Trump og Rússa.

Vitnisburður Comey verður opinber og hefur hann ráðfært sig við lögfræðing til að tryggja að engin lagaleg álitamál komi upp vegna þessa en starfsmenn FBI eru bundnir trúnaði um störf sín.

Talið er að Comey muni ekki mikið vilja tjá sig um rannsóknina sem slíka en hann vilji hins vegar segja frá samskiptum sínum við Trump áður en forsetinn rak hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×