Viðskipti innlent

Ríkið dæmt til að greiða þremur innflutningsfyrirtækjum 40 milljónir króna

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í dag.
Dómurinn var kveðinn upp í dag. Vísir/Pjetur
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða þremur innflutningsfyrirtækjum, þeim Innnes, Högum verslunum og Sælkeradreifingu, 40 milljónir króna í viðbótardráttarvexti vegna vangreiddra dráttarvaxta. Dómurinn kemur í kjölfar fyrri dóms þar sem ríkinu var gert að greiða fyrirtækjunum 400 milljónir króna vegna tollakvótagjalda á landbúnaðarvörum sem stefnendur töldu sig ekki þurfa að greiða. Stefnendur í málinu vildu meina að íslenska ríkið hefði vangreitt dráttarvexti við endurgreiðslu gjaldanna. 

Í tilkynningu frá Félagi Atvinnurekanda kemur fram að aðalágreiningsmálið hafi verið varðandi tímamörk. Stefnendur töldu að upphafstími skyldi miðaður við þann dag sem upphaflega málið var höfðað en það var 16.desember 2013. Ríkið var ósammála þessu og töldu að miða ætti við dagsetningu kröfubréfa sem bárust 27.janúar 2016. Héraðsdómur féllst hins vegar á sjónarmið fyrirtækjanna.

Íslenska ríkið hefur því verið dæmt að greiða Högum verslunum kr. 23.690.845, Innnesi kr. 10.221.026 og Sælkeradreifingu kr. 6.765.636 auk málskostnað fyrirtækjanna.

Samkvæmt Páli Rúnari M. Kristjánssyni, lögmanni fyrirtækisins er dómurinn fordæmisgefandi. Í tilkynningunni er haft eftir Páli:

„Þetta er vissulega ánægjulegt og í fullu samræmi við það sem lagt var upp með. Ríkið hélt uppi ágætisvörnum í málinu en í fullri sanngirni þá er þetta mjög rökrétt og eðlileg niðurstaða sem ég vona að ríkið muni una án frekari málalenginga. Þegar ríkið hefur oftekið skatta af fólki þá á það möglunarlaust að standa skil á endurgreiðslu sinni og það að fullu. Þessi dómur mun á efa gagnast mörgum skattgreiðendum sem eiga rétt á endurgreiðslu skatta og gjalda frá íslenska ríkinu og tryggja að þeir fái fullar efndir, eðlilega vexti og greiði ekki skatta afturvirkt, eins og virðist hafa verið”, segir Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×