Erlent

Clinton gagnrýndi Facebook og sagði falskar fréttir hafa orðið sér að falli

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Clinton var í viðtali á The Code tækniráðstefnunni sem haldin var í kvöld í Los Angeles í Bandaríkjunum.
Clinton var í viðtali á The Code tækniráðstefnunni sem haldin var í kvöld í Los Angeles í Bandaríkjunum. vísir/EPA
Hillary Clinton gagnrýndi Facebook fyrir að eiga þátt í að dreifa fölksum fréttum sem að hennar sögn áttu sinn þátt í að hún tapaði forsetakosningunum fyrir Donald Trump í nóvember 2016. Þarna hafi því verið um „vopnavæðingu upplýsinga“ að ræða.

Fylgjendur hennar og þeir sem unnu að framboði hennar hafi hins vegar talið að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af fölskum fréttum þar sem allt benti til þess að hún myndi vinna kosningarnar. Sjálf segist Clinton ekki hafa verið svo viss.

Clinton var í viðtali á The Code tækniráðstefnunni sem haldin var í kvöld í Los Angeles í Bandaríkjunum. Farið var yfir víðan völl og meðal annars var fjallað um áhrif tölvupóstleka sem Clinton varð fyrir. Clinton segir málið hafa verið blásið upp og að úlfaldi hafi verið gerður út mýflugu.

Afskipti Rússa af kosningunum báru einnig á góma en Clinton nefndi að hún og þeir sem stóðu að baki framboði hennar hafi ítrekað varað fjölmiðla við afskiptum þeirra án árangurs. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×