Innlent

Lilja orðuð við formannsframboð

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Flokksþingi Framsóknarflokksins verður flýtt og mun það í síðasta lagi fara fram í janúar á næsta ári. Þetta var niðurstaða vorfundar miðstjórnar flokksins sem fram fór í dag í skugga átaka í Framsóknarflokknum. Lilja Alfreðsdóttir varaformaður flokksins er orðuð við formannsframboð.

Framsóknarflokkurinn hefur logað í illdeilum frá flokksþingi í október í fyrra þegar Sigurður Ingi Jóhannsson fór gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og bar naumlega sigur úr býtum í formannskjöri. Sigurður Ingi fékk 52,7 prósent atkvæða en Sigmundur Davíð 46,8 prósent.

Stór hluti flokksmanna hefur aldrei sætt sig við niðurstöðuna og ekki Sigmundur Davíð heldur en hann sagði í fréttum okkar í gær að margir framsóknarmenn litu svo á að formannskjörið á flokksþinginu í fyrra hefði „hvorki verið lýðræðislegt né heiðarlegt heldur miklu frekar afskræming á lýðræðinu.“

Sigurður Ingi Jóhannsson fjallaði um andrúmsloftið í þingflokknum í ávarpi sínu á vorþinginu í dag.

„Okkur vantar meiri og sterkari samstöðu í þingflokknum. Það er sú krafa sem almennir félagsmenn eiga með réttu á okkur sem valin hafa verið til forystu í flokknum.“

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir að flokksmenn hafi talað hreint út á fundinum.
Sigurður Ingi sagði að svo virtist sem hluti flokksmanna ætti erfitt með að sætta sig við niðurstöðu flokksþingsins í fyrra.

„Á flokksþingi í haust var tekist á. Svo virðist sem sumir líti niðurstöðu þess þings sem svik við hluta flokksins. Það er að segja að meirihlutinn hafi svikið minnihlutann. Ég skil að það geti ekki allir verið ánægðir öllum stundum og ég geri ekki kröfu um slíkt en ég á erfitt með að skilja þá sem gera óánægjuna að sínum helsta vin og félaga,“ sagði Sigurður Ingi í ávarpinu.

Eftir hádegishlé tók við sá hluti fundarins sem var lokaður fjölmiðlum undir liðnum almennar umræður. Búist var við að einhverjir flokksmanna myndu nota þennan lið til þess að ræða ágreining og andrúmsloftið í flokknum eftir flokksþingið örlagaríka á síðasta ári.

Var hart tekist á hér?

„Það var auðvitað talað hreint frá hjartanu. Þetta er akkúrat vettvangurinn fyrir slíka umræðu. Þess vegna var fundurinn lokaður, af því við viljum geta talað hreint út,“ segir Sigurður Ingi.

Á fundinum var samþykkt málamiðlunartillaga um að flýta flokksþingi og verður það haldið í síðasta lagi í janúar á næsta ári. Þetta þýðir að það verður formannskjör í flokknum eftir rúma sjö mánuði.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í samtali við fréttastofu að það hefðu verið mjög líflegar umræður á fundinum. Menn hafi brugðist við óánægju flokksmanna með því að flýta flokksþingi. 

Lilja Alfreðsdóttir sitjandi varaformaður Framsóknarflokksins er orðuð við formannsframboð. Nokkrir framsóknarmenn sem fréttastofa náði tali af eftir fundinn í dag töldu líklegt að hún myndi láta reyna á formannsslag.

„Ég hef ekki tekið ákvörðun um það. Núna er ég varaformaður flokksins og ég sinni því af mikilli kostgæfni. Það er fullsnemmt að segja til um það en ég hef hug á því að vera áfram í forystu flokksins,“ segir Lilja aðspurð um mögulegt formannsframboð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×