Erlent

Treysta varnir neyðarfrægeymslu eftir vatnsleka

Kjartan Kjartansson skrifar
Alþjóðlega frægeymslan á Svalbarða þar sem vatnsleki kom upp í haust.
Alþjóðlega frægeymslan á Svalbarða þar sem vatnsleki kom upp í haust. Vísir/EPA
Norsk stjórnvöld ætla styrkja varnir í neyðarfrægeymslu sem þau reka á Svalbarða eftir vatnsleka sem kom upp í fyrra. Geymslunni er ætlað að varðveita fræ nytjaplantna frá öllum heiminum ef til hörmunga kemur.

Engin fræ eyðilögðust í vatnslekanum sem átti sér stað í október í fyrra samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Engu að síður stendur nú til að koma upp nýjum vatnsheldum veggjum og frárennslisskurðum fyrir utan geymsluna.

Geymslan er grafin djúpt inni í fjalli á Spitsbergen, stærstu eyja Svalbarðaeyjaklasans. Henni var valinn staður þar vegna þess að sífrerinn sem umlykur hana var talinn varanlegur, að sögn Hege Njaa Aschim, talskonu norsku ríkisstjórnarinnar.

Sífrerinn bráðnaði í óvanalegum hlýindum

Óvanaleg hlýindi síðasta haust ollu því hins vegar að sífrerinn bráðnaði og vatn flæddi inn í göng við inngang geymslunnar. Hitastigið á þeim árstíma er yfirleitt um -10°C en var þess í stað í kringum frostmark. Meðalhitinn á Spitsbergen undir lok síðasta árs var um 7°C hærri en vanalega, samkvæmt frétt The Guardian.

„Þetta var eins og vott sumar í Noregi,“ sagði Aschim við BBC.

Fræ um fimm þúsund tegunda eru geymd á Svalbarða, frosin og þurrkuð. Geymslan er varahirsla fyrir önnur lönd ef til hörmunga kemur sem eyða nytjaplöntum.

Fræ borin inn í geymsluna á Svalbarða. Alls eru fræ um 5.000 nytjaplantna varðveitt þar fyrir mögulegum hörmungum framtíðarinnar.Vísir/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×