Erlent

Ákæra mann vegna morðs á lögreglumanni í París

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá vettvangi árásarinnar við Champs Elysees í síðasta mánuði.
Frá vettvangi árásarinnar við Champs Elysees í síðasta mánuði. Vísir/AFP
Lögreglan í Frakklandi hefur ákært mann fyrir hryðjuverkabrot eftir að erfðaefni úr honum fannst á byssu sem notuð var til að myrða lögregluþjón í París í síðasta mánuði.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að maðurinn sé 23 ára gamall og hafi ekki komið við sögu lögreglu áður. Þetta er fyrsta ákæran sem er gefin út vegna árásarinnar á lögreglumenn við Champs Elysees-breiðstrætinu í París 20. apríl.

Einn lögreglumaður var skotinn til bana í árásinni en auk hans særðust tveir aðrir lögreglumenn og þýskur ferðamaður. Skilaboð fundust við lík lögregluþjónsins þar sem borið var lof á hryðjuverkasamtökin Ríki íslams.

Árásarmaðurinn, Karim Cheufri, var skotinn til bana af lögreglu á staðnum. Hann ók upp að kyrrstæðri lögreglurútu við Champs Elysees og skaut lögreglumann til bana inn um opinn glugga ökumannsmegin. Hann skaut einnig á tvo aðra lögreglumenn hinum megin við rútuna.

Maðurinn sem nú hefur verið ákærður var handtekinn í París. Hann er nú í varðhaldi og á að hafa sagt rannsakendum að hann hafi ekki þekkt lögreglumanninn sem var drepinn. Ákæran á hendur honum varðar hryðjuverkasamsæri og að hafa meðhöndlað skotvopn sem var notað í hryðjuverki.


Tengdar fréttir

Hafði áður reynt að myrða þrjá lögreglumenn

Maðurinn sem grunaður er um að hafa skotið lögreglumann til bana og sært tvo til viðbótar á Champs Élysées í París í gærkvöldi var til rannsóknar hjá frönskum lögreglunni þar sem hann hafði sýnt að hann ætlaði sér að myrða lögreglumenn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×