Erlent

Ísraelar hafa áhyggjur af vopnasölu til Sáda

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Salman bin Abdulaziz al-Saud, konungur Sádi-Arabíu.
Donald Trump og Salman bin Abdulaziz al-Saud, konungur Sádi-Arabíu. Vísir/AFP
Ráðamenn í Ísrael segja vopnasölu Bandaríkjanna til Sádi-Arabíu vera áhyggjuefni. Mikilvægt sé að Ísrael haldi hernaðarlegum yfirburði sínum á svæðinu. Tveir ráðherrar úr Likud-flokki Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segja að krefja verði Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, svara þegar hann heimsækir Ísrael á næstu dögum.

Trump fagnaði í gær fjölda samninga sem Bandaríkin og Sádi-Arabía hafa gert sín á milli. Þar á meðal er samningur sem Hvíta húsið segir vera stærsta vopnasölusamning í sögu Bandaríkjanna.

Samkvæmt Times of Israel kvartaði orkumálaráðherra Ísrael, Yuval Steinitz, yfir því í dag að yfirvöld í Bandaríkjunum hafi ekki ráðfært sig við Ísrael áður en samið var um vopnasölurnar.

„Sádi-Arabía er óvinveitt ríki og við þurfum að tryggja hernaðarlega yfirburði okkar,“ sagði Steinitz.

Yisrael Katz, ráðherra njósnamála, sló á svipaða strengi en sagðist þó vona að ferðalag Trump um svæðið myndi styrkja bandalög Mið-Austurlanda gegn Ísrael. Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að tilgangur vopnakaupa Sáda væri svo þeir gætu betur varist Íran og áhrifum þeirra.

Meðal þess sem Bandaríkin ætla að selja Sádum eru Patriot og THAAD eldflaugavarnarkerfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×