Erlent

Skransöludemantur reyndist tugmilljóna virði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Demanturinn sem um ræðir.
Demanturinn sem um ræðir. Vísir/Southeby's
Demantshringur sem bresk kona keypti á skransölu fyrir andvirði tíu punda á níunda áratug síðustu aldar mun líklega seljast á um 350 þúsund pund, um 45 milljónir íslenskra króna. BBC greinir frá.

Hringurinn var keyptur á skransölu á vegum spítala í London. Taldi kaupandinn að hringurinn væri ekki ekta og líklega einhvers konar leikmunur.

Gekk hún með hringinn á sér á nánast hverjum degi í áratugi. Hafði eigandinn ekki hugmynd um að hringurinn væri í raun og veru frá 19. öld og væri hvorki meira né minna en 26 karöt.

Eftir að hafa átt hringinn í um 30 ár fór hún með hringinn til uppboðshússins Southeby's þar sem henni var tjáð að hringurinn gæti verið verðmætur.

Var demanturinn rannsakaður og í ljós kom að hann var ekta og líklega mjög verðmætur.

Mun hann verða boðinn upp í sumar og reiknar Southeby's með að hann verði seldur á um 350 þúsund pund, líkt og áður segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×