Erlent

Getur ekki hugsað sér að Bretar gangi frá samningaborðinu án samninga

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Michel Barnier.
Michel Barnier. Vísir/EPA
Aðalsamningamaður Evrópusambandsins í komandi Brexit viðræðum, Michel Barnier, segir að hann geti ekki hugsað sér að Bretar muni ganga frá samningaborðinu án samninga. BBC greinir frá. 

David Davis, aðalsamningamaður Breta, hefur áður sagt að það geti verið möguleiki fyrir Breta að ganga einfaldlega frá samningaborðinu ef að Evrópusambandið fer fram á að Bretar borgi of háan útgönguskatt.

Ráðherraráð Evrópusambandsins gaf Barnier leyfi til þess að hefja samningaviðræður við Breta í næsta mánuði að loknum þingkosningum í Bretlandi sem fara fram þann 8. júní. Hann segir að „engir samningar“ komi ekki til greina.

Breskir ráðamenn hafa brugðist reiðir við vegna fregna þess efnis að Evrópusambandið muni fara fram á að Bretland greiði sambandinu allt að 86 milljarða sterlingspunda í sérstakan útgönguskatt.

Þá hefur sambandið einnig farið fram á að viðunandi árangri verði náð í Brexit viðræðunum um réttindi evrópskra borgara sem og landamæri Írlands áður en að gengið verði til fríverslunarviðræðna við Bretland.

Viðræður munu hefjast að fullu þann 19. júní næstkomandi en evrópskir ráðamenn segja mikilvægt að samningaferlið verði gegnsætt.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að samningaviðræðurnar verði þær mikilvægustu í sögu Bretlands og að ríkisstjórn hennar muni róa að því öllum árum að tryggja hagsmuni Bretlands, fái hún til þess brautargengi í komandi þingkosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×