Íslenski boltinn

Logi ráðinn þjálfari Víkinga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Logi Ólafsson er kominn aftur í Víkina.
Logi Ólafsson er kominn aftur í Víkina. vísir/vilhelm
Logi Ólafsson hefur verið ráðinn þjálfari Víkings í Pepsi-deild karla en þetta staðfestir Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri félagsins, við 433.is. Samningurinn gildir til tveggja ára.

Logi tekur við starfinu af Milosi Milojevic sem sagði upp síðastliðinn föstudag og var svo á mánudaginn ráðinn þjálfari Breiðabliks. Undir stjórn Milosar vann Víkingur flottan sigur á KR í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar en síðan þá er liðið búið að tapa þremur leikjum í röð.

Logi Ólafsson er öllum hnútum kunnugur í Víkinni en hann stýrði liðinu frá 1990-1992 og gerði liðið að Íslandsmeistara árið 1991. Það var fimmti Íslandsmeistaratitill Víkinga og síðasti titill sem liðið hefur unnið.

Á löngum og farsælum ferli hefur Logi gert ÍA að Íslandsmeistara og einnig þjálfað KR, FH og Selfoss í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins. Hann þjálfaði síðast Stjörnuna árið 2013 og skilaði liðinu í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar með 43 stigum.

Logi hefur einnig verið þjálfari kvenna- og karlalandsliðsins en síðast stýrði hann karlalandsliðinu ásamt Ásgeiri Sigurvinssyni frá 2003-2005.

Hann hefur um árabil verið aðalsérfræðingur Stöð 2 Sport í beinum útsendingum frá Pepsi-deildinni og Borgunarbikarnum en á síðustu leiktíð kom hann einnig inn í teymi Pepsi-markanna.

Fyrsti leikur Loga með Víkingsliðið verður á móti KA fyrir norðan á laugardaginn klukkan 14.00 en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×