Erlent

Hungurverkfalli palestínskra fanga í Ísrael lokið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Palestínumenn á Vesturbakkanum mótmæltu meðferð ísraelska yfirvalda á palestínskum föngum í vikunni.
Palestínumenn á Vesturbakkanum mótmæltu meðferð ísraelska yfirvalda á palestínskum föngum í vikunni. Vísir/AFP
Fjörutíu daga hungurverkfalli palestínskra fanga í Ísrael lauk í gær. Þetta segir í tilkynningu frá fangelsismálayfirvöldum í Ísrael og embættismönnum í Palestínu. Reuters greinir frá.

Hungurverkfallið hófst 17. apríl síðastliðinn en um áttahundruð palestínskir fangar héldu það út. Hungurverkfallinu lauk í gær þegar samkomulag náðist á milli Alþjóðanefndar Rauða krossins (ICRC) og palestínskra og ísraelskra yfirvalda um að koma á umbótum á aðstæðum í fangelsunum.

Palestínumaðurinn Marwan Barghouti, sem hlaut fimm lífstíðardóma árið 2004 fyrir að myrða Ísraelsmenn í seinni uppreisn Palestínumanna, er upphafsmaður hungurverkfallsins. Með hungurverkfallinu vildi hann mótmæla einangrunarvist í fangelsum án réttarhalda, sem palestínskir fangar í Ísrael hafa þurft að búa við síðan á níunda áratug síðustu aldar. Yfirvöld í Ísrael segja þessa meðferð á palestínskum föngum nauðsynlega á grundvelli öryggisstefnu landsins.

Ástandið á Vesturbakkanum og við landamæri Ísraels og Gaza-svæðisins hefur lengi verið eldfimt. 18 palestínskir fangar eru nú á sjúkrahúsi í kjölfar hungurverkfallsins en um 6500 Palestínumenn eru fangar í ísraelskum fangelsum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×