Viðskipti innlent

Fluttu út ál fyrir 181 milljarð í fyrra

Hörður Ægisson skrifar
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.
Útflutningsverðmæti álvera á Íslandi námu 181 milljarði árið 2016 eða 33,9% af heildarvöru­útflutningi. Þar af námu innlend útgjöld álveranna tæpum 80 milljörðum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur á ársfundi Samáls, sem haldinn verður í Hörpu í dag, fimmtudaginn 11. maí.

„Útflutningsverðmætin lækka töluvert frá árinu 2015 og munar þar mestu um styrkingu krónunnar og lægra álverð,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls. Árið 2015 námu útflutningsverðmætin um 237 milljörðum. 

„Álverin keyptu vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja fyrir 22,5 milljarða og er þá raforka undanskilin. Það er til marks um gróskuna í álklasanum, en í þeim hópi eru fyrirtæki á borð við verkfræðistofur, vélsmiðjur, málmsteypur og skipafélög. Þar á meðal eru fyrirtæki sem flytja út vörur og þjónustu til álvera um allan heim.“

Raforkukaupin námu rúmum 36 milljörðum, en þá er horft til raforkunotkunar þeirra og uppgefins meðalverðs Landsvirkjunar til stóriðju, að sögn Péturs. „Alls nam álframleiðsla í fyrra 856 þúsund tonnum, eða um 1,4% af heimsframleiðslu áls.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×