Viðskipti innlent

Íslandsbanki hagnast um 3 milljarða

Sæunn Gísladóttir skrifar
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. vísir/gva
Á fyrsta ársfjórðungi 2017 var hagnaður Íslandsbanka eftir skatta 3 milljarðar króna, samanborið við 3,5 milljarða. Króna á sama tímabili árið 2016.

Hagnaður bankans af reglulegri starfsemi var 3,5 milljarðar króna, sem er sambærilegt við fyrsta fjórðung ársins 2016, segir í tilkynningu. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 15 prósent eiginfjárþátt 1 (CET1) var 10,6 prósent á fjórðungnum, samanborið við 9,4 prósent á sama tímabili í fyrra.

Hagnaðurinn á fyrsta ársfjórðungi stafar einkum af sterkum grunntekjum. Arðsemi eigin fjár var 7 prósent, samanborið við 6,9 prósent á sama tímabili 2016.

Hreinar vaxtatekjur voru 7,4 milljarðar króna sem samsvarar 2,0% lækkun. Vaxtamunur var 2,9 prósent, sama og árið áður.

Hreinar þóknanatekjur voru 3,3 milljarðar króna á fjórðungnum, samanborið við 3,1 milljarða króna á sama tímabili í fyrra, sem er 4% hækkun milli ára. Kostnaðarhlutfall var 60,1 prósent, samanborið við 59 prósent árið áður. Bankaskattur og einskiptiskostnaður eru undanskilin við útreikning kostnaðarhlutfalls.

Heildareignir voru 1.029 milljarðar króna, samanborið við 1.048 milljarðar króna í árslok 2016.  Útlán til viðskiptavina og lausafjársafn voru samtals 96 prósent af efnahagsreikningnum.

„Grunnrekstur bankans er áfram stöðugur, en vaxta- og þóknanatekjur standa að baki um 97 prósent af tekjum bankans. Arðsemi eigin fjár af reglulegum rekstri var 10,6 prósent, samanborið við 9,4 prósent á sama tímabili í fyrra. Samþykkt var á aðalfundi bankans í mars að greiða út 10 milljarða króna af hagnaði ársins 2016 í arð til hluthafa. Lausa- og eiginfjárhlutföll eru áfram sterk og vogunarhlutfall var áfram hóflegt eða 15.5 prósent,” segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

„Afnám fjármagnshafta sem tilkynnt var um í mars var stórt skref fyrir íslenskt efnahagslíf. Lánshæfismatseinkunnir ríkissjóðs Íslands hækkuðu í kjölfarið og eins lánshæfismatseinkunnir Íslandsbanka sem standa nú í BBB frá bæði Standard & Poor's og Fitch Ratings.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×