Lífið

Bað um ársbirgðir af kjúklinganöggum í heimsins útbreiddasta tísti

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Carter Wilkinson á útbreiddasta tíst allra tíma.
Carter Wilkinson á útbreiddasta tíst allra tíma.
Nýtt tíst hefur velt tísti Ellen DeGeneres frá Óskarsverðlaununum árið 2014 úr sessi sem útbreiddasta tíst allra tíma. Tístið snýst um kjúklinganagga.

Ef til vill héldu margir að meti Ellenar yrði ekki haggað en stjörnum prýdd sjálfsmynd hennar frá Óskarsverðlaununum hefur verið endurtíst 3,4 milljón sinnum.

Það óhugsandi hefur hins vegar gerst og það er táningur frá Nevada-ríki Bandaríkjanna hefur slegið Ellen við. Það eina sem hann gerði var að spyrja forsvarsmenn skyndibitastaðarins Wendy's hversu mörg endurtíst hann þyrfti að fá til þess að fá ókeypis ársbirgðir af kjúklinganöggum.

Það stóð ekki á svarinu. Sá sem sér um Twitter-reikning Wendy's svaraði að hann þyrfti að fá 18 milljónir endurtísta og þá hófst söfnunin.

Einfalt en áhrifaríkt en það tók Carter Wilkerson um einn mánuð að safna nógu mörgum endurtístum til þess að slá met Ellenar. Hún virðist reyndar ekki vera par sátt við að missa metið og fékk meðal annars leikarann Bradley Cooper með sér í lið til þess að reyna að slá tísti Wilkerson við. Án árangurs.

Í vikunni barst svo staðfesting frá heimsmetabók Guinnes um að tístið um kjúklinganaggana væri útbreiddasta tíst allra tíma. Skömmu síðar ákvað Wendy's svo að verða við beiðni Wilkerson um ókeypis ársbirgðir af kjúklinganöggum, þrátt fyrir að töluvert vantaði upp á að tístinu hafi verið endurtíst átján milljón sinnum.

Í augnablikinu er staðan þannig að tísti Wilkerson hefur verið endurtíst hátt í 3,6 milljón sinnum á meðan tíst Ellenar er fast í rúmlega 3,4 milljónum endurtísta.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×