Enski boltinn

Ein ákvörðun breytti öllu hjá meisturum Chelsea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þrír, fjórir, þrír alla leið á toppinn.
Þrír, fjórir, þrír alla leið á toppinn. vísir/getty
Að kvöldi laugardagsins 24. september tók Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, ákvörðum sem átti eftir að breyta gengi liðsins í ensku úrvalsdeildinni og hafa svo mikil áhrif á fótboltaheiminn að þau náðu meira að segja til litla Íslands.

Ítalinn var búinn að tapa tveimur stórleikjum í röð með Chelsea; á móti Liverpool og svo Arsenal þennan örlagaríka laugardag. Hann þurfti að ákveða hvort hann færi í leikkerfi sem skilaði honum þremur Ítalíumeistaratitlum í röð, 3-4-3, eða halda sig við fjögurra manna línuna.

Conte treysti á leikmannahópinn og kerfið sem hann þekkir svo vel. Uppskeran? Öruggur Englandsmeistaratitill á hans fyrstu leiktíð sem knattspyrnustjóri í erfiðustu deild heims.

Hugrekkið sem hann sýndi var mikið og traustið á leikmannahópnum sömuleiðis því Conte var að stýra Ítalíu á EM síðasta sumar og hafði lítinn sem engan tíma til að þjálfa upp 3-4-3 kerfið fyrir leiktíðina. Hann þurfti að henda mönnum í djúpu laugina með þetta á miðju tímabili.

Michy Batshuayi skorar markið sem tryggði Chelsea titilinn.vísir/getty

Þrettán í röð

Þú veist að þú tókst rétta taktíska ákvörðun þegar liðið þitt vinnur þrettán leiki í röð. Sú var raunin hjá Chelsea sem hóf að valta yfir deildina og var gjörsamlega óstöðv­andi. Manchester United var lagt að velli, 4-0, Everton fékk 5-0 skell, Tottenham lá í valnum á Brúnni, 2-1 og City var skellt á útivelli, 3-1, á þessum þrettán leikja spretti.

„Þessi ákvörðun breytti tímabilinu okkar. Við þurftum að finna nýja lausn og nýtt kerfi sem myndi henta liðinu betur. Ég vissi alltaf að ég gæti spilað 3-4-3 kerfið vegna þess að ég hef leikmennina í það. Við vorum ekki heppnir heldum stóðum við okkur bara frábærlega. Ég og leikmennirnir unnum þennan titil saman,“ sagði glaðbeittur Conte eftir sigurinn á West Bromwich Albion á föstudagskvöldið þar sem Lundúnaliðið endanlega geirnegldi Englandsmeistaratitilinn.

Conte sýndi hæfni sína svo um munaði á þessari leiktíð en hann hefur fengið mikið lof fyrir að kreista allt út úr leikmannahópnum og búa til dæmis frábæran vængbakvörð úr Victori Moses sem hefur annars verið lánaður frá félaginu á hverju ári undanfarnar leiktíðir.

Persónur og leikendur eru vel þekktar hjá Chelsea; liðið er með tvo af allra bestu leikmönnum deildarinnar í N’Golo Kante og Eden Hazard, Diego Costa er einn besti framherji Evrópu og markvörðurinn Thibaut Cortouis er magnaður.

En svo eru það mennirnir sem gera svo mikið en fer minna fyrir.

Vissir þú, lesandi góður, að Spánverjinn César Azpilicueta, sem Conte breytti í frábæran miðvörð í þriggja manna kerfinu, er búinn að spila flestar mínútur allra í deildinni og sá er búinn að standa sig vel? Svo er félagi hans í vörninni, Gary Cahill, með þriðju bestu sendingaprósentu allra varnarmanna í úrvalsdeildinni. Azpilicueta er þar í sjötta sæti.

Svo er það Cesc Fábregas sem fær ekki mikið að spila. Spænski töframaðurinn er samt fjórði á stoðsendingalistanum með ellefu stykki á eftir Kevin De Bruyne, Gylfa Þór og Christian Eriksen. Fábregas nýtir sín tækifæri frábærlega og gefur stoðsendingu á 111 mínútna fresti. Næstur er De Bruyne með stoðsendingu á 175 mínútna fresti. Þetta kallast að koma inn af krafti.

Cesc Fábregas gefur stoðsendingu á 111 mínútna fresti en kemst samt ekki í liðið.Vísir/Getty

Víðtæk áhrif

Fótboltinn er stundum svolítið eins og tískan; ef einn fær sér rifnar gallabuxur máttu bóka að næsti maður rífur fram skærin. Þannig hefur Conte komið 3-4-3 í sviðsljósið með því að láta Chelsea spila það. Ítalinn gerði það sama með frábærum árangri hjá Juventus þar sem hann vann þrjá Ítalíumeistaratitla í röð. Það er bara allt annað að gera þetta í deildinni sem allir í heiminum fylgjast með.

Fleiri þjálfarar úti um allan heim eru farnir að nota þriggja manna miðvarðalínur sem er ágætis tilbreyting frá 4-2-3-1 kerfinu sem meira og minna allir hafa notað undanfarinn áratug eða svo. Conte-áhrifin teygðu meira að segja anga sína til Íslands þar sem meistarar FH eru byrjaðir að spila 3-4-3 sem og KR og Grindavík. Stjarnan á þetta einnig í vopnabúri sínu.

Conte steig vart feilspor á leiktíðinni og fékk mikið hrós frá sérfræðingum á Englandi á föstudagskvöldið sem kepptust við að hlaða hann lofi.

„Það er ótrúlegt að sjá hvernig hann hefur haldið öllum ánægðum. Liðið fær ekki á sig rauð spjöld og aginn er mikill. Stöðugleikinn í liðinu er ótrúlegur og ástríða Conte sem og yfirvegun hans hefur smitast út í leikmannahópinn,“ sagði Ian Wright, fyrrverandi framherji Arsenal, um Ítalann sem nú stendur uppi sem Englandsmeistari á sinni fyrstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×