Erlent

Kalla eftir því að upptökur af samskiptum Trump og Comey verði afhentar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Donald Trump og James Comey.
Donald Trump og James Comey. Vísir/AFP
Þingmenn í Bandaríkjunum hafa kallað eftir því að Donald Trump Bandaríkjaforseti afhendi allar upptökur af samskiptum sínum við James Comey, yfirmann Alríkislögreglunnar sem var rekinn í síðustu viku, séu þær á annað borð til.

Trump gaf í skyn á Twitter eftir brottrekstur Comey að hann ætti upptökur af samtölum þeirra og varaði Comey við því að tala við fjölmiðla. Hvorki Trump sjálfur né talsmaður Hvíta hússins hefur viljað tjáð sig um hvort slíkar upptökur séu yfir höfuð til.

Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður Repúblikana segir að Hvíta húsið verði að segja það hreint út hvort upptökurnar séu til.

„Það þýðir ekki að reyna að vera sniðugur um svona upptökur. Ef það eru til einhverjar upptökur af samtalinu þá þarf að afhenda þær,“ sagði Graham í viðtali í þættinum Meet the Press á NBC.

„Það er eins gott fyrir James Comey að ekki séu til neinar „upptökur“ af samtölum okkar áður en hann fer að leka þeim í fjölmiðla,“ tísti forsetinn.

Mike Lee, öldungadeildarþingmaður Repúblikana, tekur í sama streng og Graham og sagði að það væri óumflýjanlegt að Hvíta húsið þurfi að framvísa upptökunum, séu þær yfir höfuð til staðar. Hann sagði að upptökur samtala í Hvíta húsinu væri „ekki endilega besta hugmyndin.“

Brottreksturinn þykir hafa komið eins og þruma úr heiðskýru lofti og hélt Comey meðal annars sjálfur í fyrstu að um hrekk væri að ræða.

FBI er með starfsmenn forsetaframboðs Donald Trump til rannsóknar vegna mögulegs samstarfs þeirra við yfirvöld í Rússlandi við að reyna að hafa áhrif á forsetakosningarnar í fyrra. Í ljósi þess þykir brottrekstur Comey afar umdeildur og hefur hann verið harðlega gagnrýndur, þá sérstaklega af demókrötum.

Comey sjálfur hefur reyndar einnig verið umdeildur undanfarna mánuði og hefur Hillary Clinton meðal annars sakað hann um að hafa kostað sig forsetaembættið með því að greina frá rannsókn á tölvupóstum Clinton, skömmu fyrir kosningar.


Tengdar fréttir

Trump þótti Comey einfaldlega ekki standa sig nógu vel

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur rekið yfirmann alríkislögreglunnar. Þótti hann ekki standa sig nógu vel. Alríkislögreglan rannsakar áhrif Rússa á forsetakosningarnar og möguleg tengsl við framboð Trumps. Fjórir koma til greina sem eft




Fleiri fréttir

Sjá meira


×