Lífið

101 árs Breti varð elsti maðurinn til að fara í fallhlífarstökk

Anton Egilsson skrifar
Hinn rúmlega hundrað ára gamli Hayes er hvergi banginn.
Hinn rúmlega hundrað ára gamli Hayes er hvergi banginn. Skjáskot
Bretinn Bryson William Verdun Hayes varð á dögunum elsti maðurinn til að fara í fallhlífarstökk en Hayes var hvorki meira né minna en 101 árs og 38 daga gamall þegar hann vann það frækna afrek. CBS greinir frá þessu.

Hayes sem er fyrrum hermaður stökk þá út úr flugvél í fimmtán þúsund feta hæð en með honum í för voru tíu afkomendur hans. Gamla metið átti Armand Gendreau en hann var 101 árs og 3 daga gamall þegar hann sló metið á sínum tíma.

Segist Hayes fyrst hafa langað til þess að fara í fallhlífarstökk þegar hann var 90 ára gamall en þá hafi kona hans talað hann af því. Hann hafi þó látið drauminn rætast á síðasta ári, þá 100 ára gamall, en þá fór hann í sitt fyrsta fallhlífastökk og varð þar með elsti Bretinn til að gera slíkt.

Við lendinguna sagði Hayes að þetta hafi verið alveg dásamlegt.

„Í alvöru talað, ég myndi gera þetta allt aftur á morgun.“

Af orðum Hayes að dæma má því ekki telja ólíklegt að hann komi til með að bæta sitt eigið met í náinni framtíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×