Innlent

Hálfdan kjörinn formaður Sjómannadagsráðs

Atli Ísleifsson skrifar
Hálfdán Henrýsson og Guðmundur Hallvarðsson.
Hálfdán Henrýsson og Guðmundur Hallvarðsson. Sjómannadagsráð
Hálfdan Henrýsson var kjörinn nýr formaður Sjómannadagsráðs á aðalfundi síðastliðinn fimmtudag. Hann tekur við embættinu af Guðmundi Hallvarðssyni sem átt hefur sæti í stjórn ráðsins í 33 ár, þar af tæpan aldarfjórðung sem formaður. Guðmundur gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Í tilkynningu segir að Hálfdan þekki vel til starfa Sjómannadagsráðs en hann settist í stjórn þess árið 1993. Hafi hann gegnt stöðu ritara, gjaldkera og  embætti varaformanns. Á aðalfundinum voru Guðmundi þökkuð góð störf í þágu Sjómannadagsráðs og óskað allra heilla í framtíðinni.

Haft er eftir Hálfdáni að Guðmundur hafi haft mikil áhrif á starfsemi Sjómannadagsráðs á löngum og farsælum ferli sínum í stjórn ráðsins, ekki síst þau ár sem hann hefur gegnt formannsstarfi. „Sjómannadagsráð hefur þróast mikið á þessum árum og starfsemin vaxið að öllu umfangi. Í raun má segja að starfsemi Sjómannadagsráðs í heild sé ekki minni í sniðum en hjá meðalstóru fyrirtæki í atvinnulífi landsmanna enda starfa á vegum þess ríflega 900 hundruð manns hjá dótturfélögum þess, aðallega á Hrafnistuheimilunum sex á höfuðborgarsvæðinu, en Hrafnista er stærsti veitandi öldrunarþjónustu á Íslandi,“ segir Hálfdán.

Í tilkynningunni segir að síðasta embættisverk Guðmundar hafi verið undirritun samninga og viljayfirlýsingar við Reykjavíkurborg um byggingu og rekstur nýs hjúkrunarheimilis, þjónustumiðstöðvar og leiguíbúða fyrir aldraða við Sléttuveg í Fossvogsdal.

„Á hjúkrunarheimilinu verður fyrirkomulag svipað því sem er í dag á Hrafnistu-heimilunum. Byggingarframkvæmdir hefjast síðar á þessu ári og kemur það því í hlut nýkjörins formanns að fylgja verkefninu eftir, enda gert ráð fyrir að hjúkrunarheimilið taki til starfa 2019. Í beinu framhaldi hefjast framkvæmdir við þjónustumiðstöðina, sem Sjómannadagsráð mun byggja, eiga og reka, auk þriggja fjölbýlishúsa með um 125 leiguíbúðum í eigu Naustavarar, dótturfyrirtækis Sjómannadagsráðs.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×