Innlent

Fimm greinst með fjölónæmar bakteríur

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Karl Gústaf Kristinsson, prófessor og yfirmaður sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans.
Karl Gústaf Kristinsson, prófessor og yfirmaður sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans. Vísir/Sigurjón Ólason
Fimm einstaklingar hér á landi hafa greinst með nær alónæmar bakteríur sem einungis örfá sýklalyf virkuðu á að sögn Karls Gústafs Kristinssonar, prófessors og yfirmanns sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans. Allir hinir sýktu höfðu verið á ferðalagi. Yfirlæknir segir stöðuna grafalvarlega og hætt er við að við færumst langt aftur í tímann fáist ekki ný sýklalyf.

„Sem betur fer höfum við ekki hér á landi þegar fengið bakteríu sem er alónæm en það var sagt frá slíku tilfelli í Bandaríkjunum á seinni hluta síðasta árs þar sem kona dó sem hafði sýkst af þarmabakteríu sem var ónæm fyrir öllum þekktum sýklalyfjum. Það er sá raunveruleiki sem við erum að horfa fram á að þróist áfram ef allt verður óbreytt," segir Karl.

Eins og Stöð tvö greindi frá skilaði starfshópur um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi í gær greinargerð þar sem finna má aðgerðalista fyrir stjórnvöld. Þar segir meðal annars að mikilvægt sé að salernisaðstaða á ferðamannastöðum verði bætt.

„Sérstaklega þar sem stórir ferðamannastaðir eru í nágrenni við stór landbúnaðarsvæði, sérstaklega þar sem grunnvatn stendur lengi, rennur ekki að. Við þekkjum dæmi um það að á ákveðnum svæðum hafa komið upp salmonellusýkingar í búfé þar sem afrennsli var ekki auðvelt. Það gætu alveg eins borist ónæmar bakteríur á slíku svæði," segir hann.

Karl segir mikilvægt að leggja vel í rannsóknir. „Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli hér á Íslandi að varðveita þetta einstaka umhverfi og þessa einstöku aðstöðu sem við höfum í dag. Við erum öfundsverð og við erum eyja þannig við ættum að hafa alla burði til að geta seinkað þessari þróun meira en aðrar þjóðir," segir Karl.

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, fagnar skýrslunni og segir að strax verði hafist handa. „Tímaramminn er nú bara sá að við megum helst engan tíma missa og þurfum að setja þetta af stað og erum að vonast til að við getum sett eitthvað af þessum verkefnum og hópum af stað fyrir sumarið."

Að sögn Óttars á eftir að skoða fjármögnun. „Við þurfum að kostnaðarmeta eitthvað af þeim áður en við getum farið af stað í að finna fjármagn til að setja þær af stað. En það er líka vinna í samhæfingu, upplýsingaöflun, í stöðlum og vinnulagi inni á stofnunum og svo framleiðis sem á að vera hægt að undirbúa strax og á ekki að þurfa að vera og háð fjárveitingum."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×