Erlent

Varaforsetinn dregur framboð til baka og styður Rouhani

Atli Ísleifsson skrifar
Eshaq Jahangiri, varaforseti Írans, og Hassan Rouhani Íransforseti.
Eshaq Jahangiri, varaforseti Írans, og Hassan Rouhani Íransforseti. Vísir/AFP
Eshaq Jahangiri, varaforseti Írans, hefur dregið forsetaframboð sitt til baka og lýst yfir stuðningi við sitjandi forseta, Hassan Rouhani. Forsetakosningar fara fram í Íran á föstudag.

Fyrr í vikunni dró íhaldsmaðurinn, Mohammad Baqer Qalibaf, borgarstjóri höfuðborgarinnar Teheran til síðustu tólf ára, framboð sitt til baka og lýsti yfir stuðningi við klerkinn Ebrahim Raisi. Bendir því allt til að baráttan muni standa milli þeirra Rouhani og Raisi.

Í frétt BBC segir að nýleg skoðanakönnun sýni að alls 52 prósent aðspurðra styðji harðlínumennina Qalibaf og Raisi og 42 prósent Rouhani. Önnur könnun sýndi að Rouhani væri með 29 prósent fylgi, Qalibaf tólf prósent og Raisi ellefu prósent, þar sem 28 prósent aðspurðra sögðust óákveðnir og tuttugu prósent neituðu að svara.

Ef enginn frambjóðenda hlýtur meira en helming greiddra atkvæða fer fram önnur umferð þann 26. maí þar sem kosið verður á milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði í fyrri umferðinni.

Hinn sextugi Jahangiri greindi frá ákvörðun sinni fyrir framan þúsundir stuðningsmanna sinna í bænum Shiraz í gær. Sagðist hann hafa boðið sig fram til að „rödd umbótasinna“ myndi örugglega heyrast í kosningabaráttunni. Lýsti hann svo yfir stuðning við framboð Rouhani, en Jahangiri hefur varið stefnu og aðgerðir Rouhani í sjónvarpskappræðum frambjóðenda á síðustu vikum.

Íhaldsmenn hafa sótt hart að Rouhani forseta þar sem kjarnorkusamningur Íransstjórnar sem gerður var við Vesturveldin árið 2015 er ekki talinn hafa skilað þeim efnahagslega ávinningi sem Rouhani hafði lofað.

Raisi er fyrrverandi saksóknari náinn bandamaður Ali Khamenei erkiklerks. Hann hefur stýrt góðgerðastofnun sem heldur utan um framlög til helgidómsins í Mashhad. Hefur hann heitið því að skapa milljónir starfa og auka framlög til fátækra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×