Fótbolti

Brassarnir kom á Laugardalsvöllinn 13. júní

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíski þjóðsöngurinn verður spilaður á Laugardalsvelli í júní.
Brasilíski þjóðsöngurinn verður spilaður á Laugardalsvelli í júní. Vísir/Getty

Íslenska kvennalandsliðið mun spila vináttulandsleik við Brasilíu í júní en þetta verður kveðjuleikur íslenska liðsins áður en haldið er á Evrópumótið í Hollandi.

Á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands kemur fram að samningur á milli KSÍ og brasilíska knattspyrnusambandsins um leikinn hafi verið undirritaður í gærkvöldi.

Þetta er í fyrsta sinn sem brasilískt landslið spilar á Íslandi en íslenska karlalandsliðið hefur tvisvar spilað við Brasilíu út í Brasilíu.  
 
Brasilía er eitt af sterkustu landsliðum heims en meðal leikmanna er Marta sem leikur með Orlando Pride í Bandaríkjunum en hún var útnefnd leikmaður ársins af FIFA fimm ár í röð en jafnan verið meðal þeirra efstu í kjörinu. Marta er fyrirliði brasilíska landsliðsins en hún er markahæsta konan í úrslitakeppni HM kvenna frá upphafi.

Thaisa, sem spilar með Grindavík í Pepsi-deildinni, var með brasilíska landsliðinu í apríl og þar spilaði einnig Francielle sem lék með Stjörnunni sumarið 2015.  Þær ættu því að kannast vel við aðstæður á Íslandi.

Brasilía er í níunda sæti á heimslista FIFA en Ísland er í átjánda sæti listans.

Fimm dögum fyrir leikinn við Brasilíu þá munu íslensku stelpurnar spila vináttuleik við Írland í Dublin.

Fyrsti leikur íslenska liðsins á EM er síðan á móti Frakklandi 18. júlí.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira