Fótbolti

Brassarnir kom á Laugardalsvöllinn 13. júní

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíski þjóðsöngurinn verður spilaður á Laugardalsvelli í júní.
Brasilíski þjóðsöngurinn verður spilaður á Laugardalsvelli í júní. Vísir/Getty

Íslenska kvennalandsliðið mun spila vináttulandsleik við Brasilíu í júní en þetta verður kveðjuleikur íslenska liðsins áður en haldið er á Evrópumótið í Hollandi.

Á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands kemur fram að samningur á milli KSÍ og brasilíska knattspyrnusambandsins um leikinn hafi verið undirritaður í gærkvöldi.

Þetta er í fyrsta sinn sem brasilískt landslið spilar á Íslandi en íslenska karlalandsliðið hefur tvisvar spilað við Brasilíu út í Brasilíu.  
 
Brasilía er eitt af sterkustu landsliðum heims en meðal leikmanna er Marta sem leikur með Orlando Pride í Bandaríkjunum en hún var útnefnd leikmaður ársins af FIFA fimm ár í röð en jafnan verið meðal þeirra efstu í kjörinu. Marta er fyrirliði brasilíska landsliðsins en hún er markahæsta konan í úrslitakeppni HM kvenna frá upphafi.

Thaisa, sem spilar með Grindavík í Pepsi-deildinni, var með brasilíska landsliðinu í apríl og þar spilaði einnig Francielle sem lék með Stjörnunni sumarið 2015.  Þær ættu því að kannast vel við aðstæður á Íslandi.

Brasilía er í níunda sæti á heimslista FIFA en Ísland er í átjánda sæti listans.

Fimm dögum fyrir leikinn við Brasilíu þá munu íslensku stelpurnar spila vináttuleik við Írland í Dublin.

Fyrsti leikur íslenska liðsins á EM er síðan á móti Frakklandi 18. júlí.
Fleiri fréttir

Sjá meira