Erlent

Svíar hættir að eltast við Assange

Samúel Karl Ólason skrifar
Julian Assange.
Julian Assange. Vísir/AFP

Yfirvöld í Svíþjóð hafa tilkynnt að þau hafi fellt niður rannsókn á meintri nauðgun Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Sömuleiðis hefur handtökuskipun gegn Assange verið felld niður. Assange, sem er 45 ára gamall, hefur haldið til í sendiráði Ekvador í London frá árinu 2012 til að komast hjá handtöku af ótta við að vera framseldur til Bandaríkjanna.

Lögreglan í London segir þó að þrátt fyrir að yfirvöld í Svíþjóð séu hætt að eltast við Assange, verði þeir að handtaka hann fái þeir færi á því. Það er vegna annarrar ákæru gegn honum fyrir að mæta ekki fyrir rétt.

Assange hefur ávalt neitað þeim ásökunum sem beinst hafa gegn honum. 

Á Twitter-síðu Wikileaks segir að Bretar neiti að staðfesta hvort að framsalsbeiðni hafi borist frá Bandaríkjunum. Verði hann framseldur til Bandaríkjanan gæti hann verið ákærður fyrir njósnir.

Miðað við Twitter-síðu Assange, virðist hann þó nokkuð ánægður með fréttirnar.

Kristinn Hrafnsson, fyrrverandi talsmaður Wikileaks og samstarfsmaður Assange segir þetta miklar gleðifréttir.

„Það er gott að fá þær í sömu vikunni og Chelsea Manning gengur út úr fangelsi í Bandaríkjunum, sem frjáls kona. Það er gott að fá þetta sænska mál algerlega út úr myndinni. Það lá alltaf fyrir að það stóð ekki steinn yfir steini í því máli og það hvernig sænsk stjórnvöld hafa haldið á því er til háborinnar skammar,“ segir Kristinn í samtali við fréttastofu.

Hann segir vanda Assange þó ekki fullleystan þar sem víglínan hafi í raun bara færst til. Þar sem stjórnvöld í Bretlandi neiti að staðfesta hvort að framsalsbeiðni hafi borist.

„Nýlega sagði Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, að það væri forgangsmál að ákæra Julian Assange, þannig að það þarf að fá úr því skorið hver staðan er í því máli. Aðgerðir Bandaríkjamanna, sem hafa verið með leynirannsókn í gangi frá 2010 hafa alltaf verið aðal áhyggjuefnið.“

Kristinn segir að þetta þýði ekki að Assange geti yfirgefið sendiráðið enn. Enn sé í gildi handtökuskipun vegna þess að hann hafi komið sér undan tryggingu þegar hann fór inn í sendiráðið. Stóra málið sé hvort að framsalsbeiðni hafi borist frá Bandaríkjunum til Bretlands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira