Erlent

Bandaríkin gerðu loftárás á Assad-liða

Viðvörunarskotum var hleypt af en bílalestinni var ekki snúið við.
Viðvörunarskotum var hleypt af en bílalestinni var ekki snúið við. Vísir/Getty

Bandarískir flugmenn gerðu í gær loftárás á bílalest vopnaðra manna sem eru hliðhollir Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. Þetta gerðist í suðurhluta Sýrlands þar sem bandarískir sérsveitarmenn berjast með uppreisnarmönnum gegn vígamönnum Íslamska ríkisins.
Assad-liðarnir, sem munu ekki vera meðlimir stjórnarhersins, voru á leið í átt að al-Tanf herstöðinni við sem er nærri landamærum Sýrlands, Íraks og Jórdaníu. Herstöðin er í notkun Bandaríkjanna og þeir segja árásina hafa verið varnarlegs eðlis.
Yfirvöld Sýrlands og Rússlands hafa fordæmt árásina.
Auk fjölda vopnaðra manna voru nokkrir skriðdrekar í bílalestinni. Viðvörunarskotum var hleypt af en bílalestinni var ekki snúið við.
Samkvæmt frétt Washington Post eyðilögðust fjögur til fimm farartæki í árásinni auk minnst eins skriðdreka og vinnutækja.
Í samtali við Reuters fréttaveituna segir uppreisnarmaður að í bílalestinni hafi verið meðlimir vígahópa sem studdir eru af ríkisstjórn Sýrlands og Íran. Þeir hafi verið í átt að herstöðinni þegar til átaka hafi komið á milli þeirra og uppreisnarmanna.
Assad-liðar hafa á undanförnum vikum sótt stíft gegn uppreisnarmönnum, sem eru studdir af Bandaríkjunum og Jórdaníu, í suðurhluta Sýrlands. Samkvæmt BBC hafa hundruð manna verið sendir á svæðið og uppreisnarmenn segja það hafa verið gert til að stöðva sókn þeirra gegn ISIS.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira