Erlent

Bandaríkin gerðu loftárás á Assad-liða

Viðvörunarskotum var hleypt af en bílalestinni var ekki snúið við.
Viðvörunarskotum var hleypt af en bílalestinni var ekki snúið við. Vísir/Getty

Bandarískir flugmenn gerðu í gær loftárás á bílalest vopnaðra manna sem eru hliðhollir Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. Þetta gerðist í suðurhluta Sýrlands þar sem bandarískir sérsveitarmenn berjast með uppreisnarmönnum gegn vígamönnum Íslamska ríkisins.
Assad-liðarnir, sem munu ekki vera meðlimir stjórnarhersins, voru á leið í átt að al-Tanf herstöðinni við sem er nærri landamærum Sýrlands, Íraks og Jórdaníu. Herstöðin er í notkun Bandaríkjanna og þeir segja árásina hafa verið varnarlegs eðlis.
Yfirvöld Sýrlands og Rússlands hafa fordæmt árásina.
Auk fjölda vopnaðra manna voru nokkrir skriðdrekar í bílalestinni. Viðvörunarskotum var hleypt af en bílalestinni var ekki snúið við.
Samkvæmt frétt Washington Post eyðilögðust fjögur til fimm farartæki í árásinni auk minnst eins skriðdreka og vinnutækja.
Í samtali við Reuters fréttaveituna segir uppreisnarmaður að í bílalestinni hafi verið meðlimir vígahópa sem studdir eru af ríkisstjórn Sýrlands og Íran. Þeir hafi verið í átt að herstöðinni þegar til átaka hafi komið á milli þeirra og uppreisnarmanna.
Assad-liðar hafa á undanförnum vikum sótt stíft gegn uppreisnarmönnum, sem eru studdir af Bandaríkjunum og Jórdaníu, í suðurhluta Sýrlands. Samkvæmt BBC hafa hundruð manna verið sendir á svæðið og uppreisnarmenn segja það hafa verið gert til að stöðva sókn þeirra gegn ISIS.
Fleiri fréttir

Sjá meira