Erlent

Segir forseta Kína hafa hótað stríði

Samúel Karl Ólason skrifar
Rodrigo Duterte og Xi Jinping á mánudaginn.
Rodrigo Duterte og Xi Jinping á mánudaginn. Vísir/AFP

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja segir, Xi Jinping, forseta Kína, hafa hótað því að lýsa yfir stríði gegn Filippseyjum ef þeir bori eftir olíu í Suður-Kínahafi. Kína hefur gert ólöglegt tilkall til nánast alls hafsvæðisins en Alþjóðgerðardómurinn í Haag úrskurðaði í fyrra að Kína ætti ekki tilkall til Suður-Kínahafs.
Kína viðurkennir ekki niðurstöðu dómstólsins, sem sagði einnig að Filippseyjar eigi rétt á hafsvæði í 200 mílna fjarlægð frá landi. Tilkall Kína nær langt inn fyrir það.

Vísir/GraphicNews

Duterte lét ummælin falla í dag eftir að hann hafði verið gagnrýndur fyrir að hafa í raun lúffað fyrir Kínverjum og ekki þrýst á það að fylgja niðurstöðu dómstólsins. Hann sagðist hafa rætt það við Jinping á fundi þeirra á mánudaginn.
Hann rifjaði upp samtal sitt og Jinping og sagðist hafa tilkynnt honum að Filippseyjar ætluðu sér að bora eftir olíu í Suður-Kínahafi. Hann vissi að Kínverjar hefðu gert tilkall til svæðisins, en Duterte sagðist samt ætla að gera það, því það væri þeirra réttur.
Þá sagði Duterte að svar Jinping hefði verið einfalt.
„Við erum vinir, við viljum ekki deila við ykkur og viljum viðhalda vinalegu sambandi. En ef þið þvingið okkur munum við fara í stríð.“
Duterte sagði einnig að Jiping hefði heitið því að ræða úrskurðinn við Duterte en ekki  strax. Kína vilji það ekki strax svo að aðrar þjóðir sem hafa gert tilkall á svæðinu höfði ekki einnig dómsmál.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira