Viðskipti innlent

Bréf í Heimavöllum hækkuðu um 40% á einu ári

Haraldur Guðmundsson skrifar
Guðbrandur Sigurðsson er framkvæmdastjóri Heimavalla. Útistandandi hlutafé leigufélagsins er í dag um níu milljarðar króna að nafnvirði.
Guðbrandur Sigurðsson er framkvæmdastjóri Heimavalla. Útistandandi hlutafé leigufélagsins er í dag um níu milljarðar króna að nafnvirði. Vísir/GVA
Markaðsverðmæti Heimavalla nemur 16,2 milljörðum króna og hefur hækkað um 12,3 milljarða á einu ári. Gengi bréfa þessa stærsta leigufélags landsins hækkaði á sama tíma um 38 prósent eða úr 1,3 krónum á hlut í 1,8.

Stjórnendur félagsins munu hefja formlegt skráningarferli þess á Aðalmarkað Kauphallar Íslands um miðjan þennan mánuð. Frá þeim tíma, og þangað til bjöllunni verður hringt við Laugaveg 182, þurfa stjórnendur félagsins að draga saman seglin og hægja á stækkun þess.

„Við höfum einhvern tíma núna fram að miðjum maí til að ganga frá ýmsum hlutum og síðan tökum við það rólega fram yfir skráningu. Eftir að við leggjum fram skráningarlýsinguna þýðir auðvitað ekki að bæta við stórum eignasöfnum, sem breyta verulega efnahagsreikningi félagsins, og því sjáum við ekki fram á neitt stórvægilegt á næstunni fyrir utan þær íbúðir sem eru nú þegar í byggingu,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, í samtali við Markaðinn.

Stækkaði hratt

Heimavellir var stofnað í júní 2014 með sameiningu þriggja leigufélaga og síðar sama ár runnu tvö fjölbýlishús á Selfossi inn í reksturinn. Ári síðar keypti félagið eignasöfn af Íbúðalánasjóði á höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og Suðurlandi og fjárfestar á borð við fjölskyldufyrirtækið Stálskip og tryggingafélagið Sjóvá fóru inn í hluthafahópinn. Stækkun félagsins byggði því á sameiningu við leigufélög sem voru fyrir á markaði og kaupum á eignum af Íbúðalánasjóði. Endahnútur þeirrar vinnu var svo hnýttur með sameiningu við leigufélagið Ásabyggð á Ásbrú í Reykjanesbæ í desember síðastliðnum og bættust þá um 700 íbúðir í safnið.

Félagið leigir nú út, eða er með í byggingu, alls um 2.020 íbúðir og horft er til þess að íbúðum þess á höfuðborgarsvæðinu fjölgi um 400 á næstu tveimur árum. Í fyrra hófu Heimavellir framkvæmdir við nýbyggingar í Reykjavík, Mosfellsbæ og Hafnarfirði og á Akureyri og Akranesi. Eignir þess hækkuðu úr 10,4 milljörðum árið 2015 í 43 milljarða í fyrra og skuldirnar úr 8,2 milljörðum í 29,9. Eigið fé var 2,1 milljarðar árið 2015 en 13,4 milljarðar ári síðar.

„Ef þú tekur eignasafnið hjá okkur, þá eru svona sirka 85 prósent af því íbúðir sem eru leiguíbúðir sem hafa verið lengi í leigu og um fimmtán prósent er nýrra. Frekari stækkun snýst um að við fáum hagkvæmar fasteignir eða í takt við leiguverðið eins og er það núna“

Leigutekjur sjöfaldist

Heimavellir, sem verður fjórða fasteignafélagið á Aðalmarkaði Kauphallarinnar, meira en tvöfölduðust að stærð í íbúðum talið í fyrra þegar heildarstærð íslenska leigumarkaðarins var um 29 þúsund íbúðir. Almennur leigumarkaður var þar af 16.500 íbúðir og félagsleg úrræði um 12.500, eins og kemur fram í kynningu af aðalfundi leigufélagsins sem haldinn var þann 6. apríl. Um 85 prósent af tekjum félagsins koma af höfuðborgarsvæðinu eða úr sveitarfélögum sem eru í innan við klukkustundarakstur frá Reykjavík. Samkvæmt áætlunum félagsins munu leigutekjur þess nema rétt rúmum þremur milljörðum á þessu ári samanborið við 1,5 milljarða í fyrra og 500 milljónir árið 2015. Árið 2018 verði þær svo komnar í 3,7 milljarða króna og hafi þá sjöfaldast á einungis þremur árum.

Gani og Snæból stærst

Samkvæmt nýjum hluthafalista Heimavalla eru viðskiptafélagarnir Tómas Kristjánsson og hjónin Finnur Reyr Stefánsson og Steinunn Jónsdóttir enn stærstu eigendur leigufélagsins. Markaðurinn greindi í byrjun janúar frá því að þau hefðu farið inn í eigendahópinn rétt fyrir áramót, í sameiningu Heimavalla og Ásabyggðar, og þá eignast alls 23,4 prósenta hlut í félaginu. Bréf þeirra voru þá metin á 3,1 milljarð en standa nú í 3,7 milljörðum króna. Viðskiptafélagarnir eiga í Heimavöllum í gegnum þrjú fjárfestingarfélög. Gana ehf., sem er í eigu Tómasar og á 9,4 prósenta hlut, Snæbóls ehf., sem Finnur og Steinunn eiga og heldur einnig á 9,4 prósentum, og Klasa fjárfestingum ehf., sem er í eigu Siglu ehf. sem er aftur í eigu Gana og Snæbóls og er skráð fyrir 4,6 prósentum.

Stálskip, í eigu hjónanna Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar, var stærsti hluthafi leigufélagsins áður en sameiningin í desember gekk í gegn og átti þá 14,3 prósent. Það heldur nú á 9,1 prósenti hlutafjárins og þar á eftir kemur tryggingafélagið Sjóvá með 5,8 prósent. Einkahlutafélagið Túnfljót, í eigu Magnúsar Pálma Örnólfssonar, fjárfestis og fyrrverandi forstöðumanns gjaldeyrismiðlunar Glitnis, á 5,5 prósent eins um síðustu áramót.

Félagið M75 ehf. á 4,9 prósent í Heimavöllum en eins og Markaðurinn greindi frá í janúar er það í eigu lögmannsins Jóns Ármanns Guðjónssonar. Jón var áður hluthafi í Ásabyggð og keypti hluti í félaginu af slitastjórn Sparisjóðabankans, þar sem hann starfaði um tíma sem skilanefndarmaður, og Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ). Eignarhlutur hans í Heimavöllum er nú metinn á um 770 milljónir króna. Eign tryggingafélagsins VÍS í leigufélaginu hefur aukist úr 3,6 prósentum um síðustu áramót í 4,8 prósent. Þá eiga fjórir íslenskir lífeyrissjóðir hlut í Heimavöllum og er Birta lífeyrissjóður stærstur þeirra með 2,8 prósent. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×