Skoðun

Bann eða lögleiðing fíkniefna, þriðja leiðin

Einar Guðmundsson skrifar
Í umræðunni um fíkniefni eru yfirleitt einungis tveir valkostir ræddir. Í fyrsta lagi bann við fíkniefnum, sem er núverandi ástand í flestum löndum. Í öðru lagi lögleiðing fíkniefna, oftast að minnsta kosti til eigin brúks. Hér er verður bent á þriðju leiðina, en fyrst nokkur orð um birtingu vandans.

Fíkniefni eru efni sem með tímanum skemma heilann og þá sérstaklega þá hluta heilans sem eru hvað nýjastir í þróun mannkynsins og hafa með mennskuna að gera. Þannig verður persónuleiki neytenda smátt og smátt frumstæðari og þeir háðir efnunum til að geta haldið sér gangandi. Að lokum verður einstaklingurinn svo sjálfmiðaður að lítill munur verður á honum og siðblindum einstaklingum. Glæpir verða því valkostur margra. Þekking á þessum vanda er eldri en vísindin og því hafa samfélögin fyrir löngu sett lög til að bjarga einstaklingunum frá sjálfum sér og samfélaginu frá einstaklingunum, þegar þeir eru orðnir skemmdir.

Annar vandi sem herjar á samfélagið, og fíkniefnaneytendurna sjálfa, eru óbilgjörn glæpafélög, sem byggja í raun tilveru sína á ofbeldi af verstu gerð og hafa náð að skapa ótta og beita ofbeldi langt út fyrir raðir fíkniefnaneytenda. Þessir glæpahópar hafa setið einir árum saman að markaði sem veltir tugum milljarða árlega. Þannig hefur vöxtur þeirra verið gífurlegur og fórnarlömbum fjölgað eftir því. Saklaust fólk, s.s. gangandi vegfarendur, stjórnmálamenn, ættingjar neytenda, heilbrigðisstarfsfólk, lögreglumenn, fjölmiðlamenn, sjúkraflutningamenn og aðrir opinberir starfsmenn, allt eru þetta dæmi um fórnarlömb glæpahópa. Umfang ofbeldisins er slíkt að heilu samfélögin þora sums staðar ekki út úr húsi, nema yfir hábjartan daginn. Kvikmyndir frá Hollywood og víðar sýna okkur viðbjóðinn reglulega, en um leið verða kvikmyndirnar að kennslumyndböndum fyrir ofbeldismenn framtíðarinnar, eins og sjá má jafnvel hér á landi.

Lögleiðing við sérstakar aðstæður

Áðurnefnd „þriðja leið“ gengur út á að lögleiða fíkniefni, en eingöngu við sérstakar aðstæður. Markmiðið með þessari nálgun er aðallega tvíþætt. Í fyrsta lagi að hjálpa neytendum til að draga úr, eða hætta alveg neyslu. Opnaðar yrðu fíkni-móttökur reknar af hinu opinbera, mannaðar með heilbrigðisstarfsfólki, eða öðrum sem hafa menntun, og/eða innsýn í og reynslu af vanda fíkniefnaneytenda. Efnin yrðu framleidd af hinu opinbera og afhent ódýrt, eða jafnvel ókeypis, gegn vissum skilyrðum, svo sem skráningu, samtali við ráðgjafa, hvar má neyta þeirra, auk þess sem magnið verður takmarkað hverju sinni. Fíkniefnaneytandinn myndar væntanlega smám saman tengsl við starfsfólk móttökunnar og þá hjálp sem þar er að fá. Þegar hann er síðan tilbúinn fyrir frekari hjálp taka önnur meðferðarúrræði við, s.s. Vogur og LSH.

Í öðru lagi myndi þessi nálgun draga úr og jafnvel stöðva samskipti fíklanna að mestu eða öllu leyti við fíkniefnasala og glæpahópa. Það mun síðan smám saman eyðileggja hinn gróðavænlega markað fíkniefnanna og þannig fjársvelta glæpasamtökin. Ungir fíklar sem hafa misst tökin á neyslu og eru komnir í fjárskuldir við glæpasamtök, yrðu ekki lengur neyddir til innbrota, vændis, eða annarra glæpa. Glæpasamtök myndu visna að innan vegna skorts á fé. Enginn annar markaður er sambærilegur að kostum fyrir glæpahópana, því þar sameinast í dag fórnarlömbin (fíklarnir) og glæpasamtökin í að auka umfangið stöðugt, og vegna fíknarinnar er eftirspurnin að mestu stöðug á hverju sem gengur. Fórnarlömbin eru háð glæpahópunum og vernda þá síðan gegn afskiptum lögreglunnar með því m.a. að þegja um starfsemina.

Þessi þriðja leið er ekki að öllu leyti ný, því svipuð leið hefur þegar verið farin varðandi heróínfíkla, þ.e.a.s. heróínfíklar fá t.d. resept fyrir náskyldu efni, Metadón, sem var talið örlítið minna ávanabindandi og því léttara að losna úr viðjum þess en heróínsins sjálfs. Fíkillinn þarf að sjálfsögðu að eiga í samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk til að fá efnið. Einnig má segja að þessi leið hafi að miklu leyti verið valin við afléttingu áfengisbannsins á bannárunum. Áfengi mátti selja og neyta, en aðeins á ákveðnum stöðum, og að fengnu leyfi yfirvalda.

Það væri glapræði að lögleiða fíkniefni, en núverandi ástand er óásættanlegt og því er hér stungið upp á þriðju leiðinni, sem kalla má „Metadónaðferðina“ (The Metadone Method). Nákvæmari útfærslu aðferðarinnar er ekki hægt að gera skil í svo stuttri grein og bíður því betri tíma.




Skoðun

Sjá meira


×