Skoðun

Þorgerður Katrín, hvar er uppboðsleiðin nú?

Lýður Árnason skrifar
Nokkur styr hefur staðið um lög um fiskveiðistjórn eftir að HB Grandi tilkynnti um að hætta starfsemi sinni á Akranesi. Helstu forvígismenn staðarins eru hvumsa og vilja semja við fyrirtækið til að tryggja áframhaldandi vinnslu, jafnvel með milljarða kostnaði fyrir bæjarfélagið. Gangi það ekki eftir munu 100 manns missa vinnuna. En þessi saga er ekki ný af nálinni. Flestir landshlutar þekkja hana allt of vel. Ástæðan er augljós og samanstendur af tveimur orðum: Samþjöppun veiðiheimilda.

Margir halda að samþjöppun veiðiheimilda sé afleiðing af sölu þeirra sem leyfð var í lögum um stjórn fiskveiða frá 1990. Fyrsta greinin er stutt og skýr:

1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Hér kemur skýrt fram að úthlutun aflaheimilda myndar hvorki eignarrétt né óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Og þá hljóta menn að spyrja: Hvað hafa menn verið að selja, kaupa og veðsetja allan þennan tíma? Og hvernig má það vera að samþjöppun hafi orðið á sameign íslenzku þjóðarinnar sem þó má hvorki selja né veðsetja? Eiga forsvarsmenn HB Granda að svara því? Voru þeir Guðmundur í Brimi og Þorsteinn Már einhvern tíma kosnir til annars en að gæta hagsmuna sinna fyrirtækja?

Hagsmunir þjóðarinnar hafa verið í höndum þingmanna og sjávarútvegsráðherra í þái og núi. Kaup og sala á fjöreggi þjóðarinnar er þeirra vanræksla fyrst og fremst. Og í stað þess að taka nú loksins á þessari kerfisvillu talar sjávarútvegsráðherra um samfélagslega ábyrgð HB Granda og vill endurskoða veiðigjöld. Hið fyrsta liggur hin samfélagslega ábyrgð á herðum ráðherra sjálfs og hvernig ætti breyting á veiðigjöldum að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu? Hækkun þeirra yrði íþyngjandi fyrir útgerðina og lækkun kæmi fram í auknum arði. Í skúffu sjávarútvegsráðherra er hins vegar kosningaloforð um almennt uppboð á veiðiheimildum. Það gæti valdið straumhvörfum og eftir því kalla ég nú.




Skoðun

Sjá meira


×