Skoðun

Bú er landstólpi, eyðibýli ekki

Vésteinn Valgarðsson skrifar
Það fréttist um daginn að hið gamalgróna býli Unaós í Hjaltastaðaþinghá er að líkindum fara í eyði vegna þess að eigandinn, íslenska ríkið, auglýsir ekki eftir nýjum ábúanda þegar bóndinn hættir.

Nú bætast við fréttir um að fjöldi ríkisjarða sé farinn í eyði í Skaftárhreppi og oddviti hreppsins gagnrýnir hvað ríkið dregur það lengi að auglýsa þær, og ber við „stefnumótunarvinnu“. En stefnuleysi er líka ákveðin stefna í svona máli, því ef landinu er ekki haldið í byggð á meðan menn eru að hugsa sig um, þá fer það í eyði. Svo einfalt er það. Það er stefnan.

Þessi „stefnumótun“ ríkisins hefur staðið í einhver ár. Það er langur tími í landbúnaði. Það er nefnilega a.m.k. tvennt sem gerir landbúnað einstakan meðal atvinnugreina. Annars vegar er hann eina atvinnugreinin sem mannkynið getur ekki lifað án. Hins vegar er ekki hægt að hætta bara með hann og byrja aftur eftir nokkur ár, eins og stígvélaverksmiðju eða leigubílastöð. Þegar landið fer í órækt, hús í niðurníðslu, og búsmalinn í sláturhús er mjög mikið átak að byrja aftur. Og dýrt. Svo ekki sé minnst á samfélagslega upplausn, svo sem þegar börnum snarfækkar í skóla sem var fámennur fyrir.

Það vill svo til að ég er með lausn, stefnu sem hver sem er má gera að sinni: Landið á að vera í byggð og þegar bújörð í eigu ríkisins losnar á strax að auglýsa hana. Flóknara er það ekki.




Skoðun

Sjá meira


×