Innlent

Ný eign föður Bjarna í hundraða milljóna viðskiptum við ríkið

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. vísir/ernir

Virði samninga milli ISS á Íslandi og íslenska ríkisins nema minnst 209 milljónum króna. ISS er að meirihluta í eigu félaga Benedikts Sveinssonar, föður forsætis­ráðherra, og Einars Sveinssonar, föðurbróður Bjarna Benediktssonar.

Í svari Ríkiskaupa við fyrirspurn Fréttablaðsins um samninga milli ISS og ríkisins kemur fram að fyrirtækið hafi meðal annars orðið hlutskarpast í útboði um þrif á Landspítalanum, húsnæði Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og húsnæði Tollstjóra. Fyrir það fær ISS rúmar 209 milljónir króna á samningstímanum.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. VÍSIR/VILHELM

Svar Ríkiskaupa nær aftur til maí 2015 en þá tók fyrirtækið upp nýtt verkefnastjórnunarkerfi. Fleiri samningar eru í gildi en þeir sem taldir eru upp hér að framan en til þeirra var stofnað í tíð eldra kerfis. Má þar meðal annars nefna samning um þrif ISS í sex ráðuneytum frá því í febrúar 2015. Þá er mögulegt að fyrirtækið hafi gert samninga við stofnanir sem ekki voru boðnir út. Upphæð gildra samninga er því hærri en 209 milljónir.

ISS sérhæfir sig í ræstingum og rekstri mötuneyta og er langstærsti aðili markaðarins hér á landi. Velta félagsins er rúmlega þreföld velta næststærsta ræstingafyrirtækis landsins. Þá var eigið fé þess í árslok 2015 nærri tveir milljarðar króna.

Um miðjan síðasta mánuð féllst Samkeppniseftirlitið á yfirtöku nýrra eigenda á ISS. Þar eru á ferð félög í eigu Sveinssonanna Benedikts og Einars. Í gegnum þau eiga þeir nú 2/3 hluta í fyrirtækinu. Fallist var á yfirtökuna athugasemdalaust.

„Almennt er það þannig að stjórnmálamenn þurfa að passa sig að lenda ekki í þeirri að stöðu að hagsmunir þeirra eða nákominna séu líklegir til að minnka trúverðugleika þeirra,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

„Ég tel að það sé æskilegt að þetta sé rætt en fyrst og fremst að þetta hljóti að vera mjög óþægilegt fyrir forsætisráðherra.“ Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.