Viðskipti innlent

Hægt að byggja 143 meðalstórar íbúðir fyrir það sem kostar að halda Eurovision

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það kostar um 4,1 milljarð að halda Eurovision.
Það kostar um 4,1 milljarð að halda Eurovision. Vísir/Vilhelm
Eitt af því sem óneitanlega fylgir Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva eru vangaveltur um hvar og hvernig Ísland geti haldið keppnina, komi til þess að fulltrúi Íslendinga muni fara með sigur af hólmi.

Greiningardeild Arion banka veltir þessum punkti upp í nýjum Markaðspunktum greiningardeildarinnar. Er þar bent á kostnaðinn við að halda keppnina og í stað þess að velta því fyrir sér hvernig Ísland geti haldið keppnina er því velt upp hvað sé hægt að gera fyrir fjármunina sem fara í að halda keppnina.

Spurt er hvort Íslendingar vilji í raun og veru vinna keppnina og bent er á að yfirleitt tapi gestgjafarnir á því að halda keppnina enda fylgir því mikill kostnaður sem ekki er víst að komi til baka þrátt fyrir að mikill straumur ferðamanna fylgi Eurovision hvert ár.

Mynd/Arion banki
Segir í Markaðspunktunum að erfitt sé að áætla hvað það kosti að halda keppnina hér á landi, komi til þess að Svala standi uppi sem sigurvegari. Bent er hins vegar á að meðalkostnaðurinn undanfarin ár sé í kringum 4,1 milljarð króna og listar greiningardeildin upp hluti sem hægt væri að gera í staðinn fyrir að halda keppnina.

„Þar kennir ýmissa grasa, til að mynda væri hægt að halda 460 jólatónleika, reka 51 lið í Pepsí deild karla í eitt ár eða gefið öllum Íslendingum 7 ABBA Waterloo vínylplötur!“ segir í Markaðspunktunum.

Sé horft út fyrir listir og menningu má einnig gera ýmislegt fyrir milljarðana, meðal annars „byggja 143 meðalstórar íbúðir, sem væri kærkomin viðbót inn á húsnæðismarkaðinn í dag, rekið Landspítalann í tæpan mánuð, borgað rekstrarkostnað í eitt ár fyrir 2.300 grunnskólanemendur eða gefið öllum landsmönnum 12 miða í Hvalfjarðargöngin.“

Bent er þó á að þrátt fyrir að gestgjafaþjóðirnar tapi yfirleitt á því að halda keppnina megi ekki lita framhjá óbeinu áhrifunum sem keppnin getur haft á hagkerfi þeirra en allar borgir sem haldið hafa keppnina hafa upplifað nokkurn vöxt í ferðaþjónustu og efnahag, að minnsta kosti til skamms tíma.

Mynd/Arion banki

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×