Skoðun
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna

Dapurleg fjarvera Íslands

Steinunn Þóra Árnadóttir skrifar

Dagana 27. til 31.mars síðastliðinn komu 132 ríki saman í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna til þess að hefja viðræður um gerð alþjóðasamnings sem banna myndi tilvist kjarnorkuvopna. Ísland tók ekki þátt í viðræðunum frekar en flestöll önnur Natóríki.

Undirbúningur þessara viðræðna hefur staðið yfir í nokkur ár en því miður hafa íslensk stjórnvöld ekki sýnt þeim áhuga. Það vakti til að mynda athygli á árinu 2015 þegar Ísland greiddi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna atkvæði gegn tillögu um slíkt bann en eftir umræðu í fjölmiðlum, í utanríkismálanefnd og á Alþingi var þeirri afstöðu breytt í hjásetu við seinni atkvæðagreiðslu. Ísland greiddi svo að lokum atkvæði gegn því að boðað væri til viðræðnanna í mars.

Þótt minna sé talað um kjarnorkuvopn nú en þegar kalda stríðið stóð sem hæst er fátt sem ógnar mannkyni meira. Ríkin sem búa yfir kjarnorkusprengjum eru níu talsins og áætlað að sprengjurnar séu tæplega 15 þúsund í allt. Þær eru vissulega færri en þegar verst lét á tímum kalda stríðsins en tækniþróun hefur gert það að verkum að þær eru öflugri og hreyfanlegri en áður. Verði kjarnorkuvopnum beitt mun það alltaf leiða til hörmunga fyrir milljónir manna.

Því meiri orku og fjármunum sem varið er í þróun kjarnorkuvopna, því erfiðara verður að uppræta þau og koma í veg fyrir að þeim verði að lokum beitt á nýjan leik. Það eru sár vonbrigði að íslensk stjórnvöld kjósi að fylgja kjarnorkubandalaginu Nató í þessum efnum í stað þess að skipa sér í sveit með meira en 130 þjóðum til að vinna að þessu brýna máli.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira