Erlent

Bill O'Reilly sagður fá 25 milljónir dollara frá Fox

Anton Egilsson skrifar
Bill O'Reilly labbar ekki tómhentur út frá Fox sjónvarpsstöðinni.
Bill O'Reilly labbar ekki tómhentur út frá Fox sjónvarpsstöðinni. Vísir/AP
Bandaríski þáttastjórnandinn Bill O‘Reilly er sagður fá 25 milljónir Bandaríkjadollara, sem samsvarar tæpum 2,8 milljörðum íslenskra króna, frá sjónvarpsstöðinni Fox í kjölfar þess að stöðin sagði honum upp störfum. Þetta fullyrðir heimildarmaður bandarísku sjónvarpsfréttastöðvarinnar NBC sem þekkir til samningsmála O‘Reilly hjá Fox.

Upphæðin sem um ræðir er sögð nema árslaunum kappans hjá Fox en heimildarmaðurinn segir að nýr fjögurra ára samningur sem O’Reilly skrifaði undir í síðasta mánuði hefði tryggt honum 25 milljónir Bandaríkjadollara í árslaun eða 100 milljónir allt í allt.

Í samningnum hafi svo verið kveðið á um að Fox gæti sagt samningi O’Reilly upp einhliða ef upp kæmi ágreiningur sem gæti skaðað sjónvarpsstöðina. Ef að yrði, sem varð svo raunin, væri það tryggt að O’Reilly fengi fyrir sinn snúð það sem nemur árslaunum hans.

Greint var frá því í gær að Fox hefði sagt O’Reilly upp störfum hjá stöðinni. Uppsögnin kemur stuttu eftir að fregnir bárust af því að fimm samstarfskonur O’Reilly hefðu sakað hann um að hafa áreitt sig kynferðislega á vinnustaðnum. Í kjölfarið greiddi O’Reilly, ásamt Fox fyrirtækinu, sáttagreiðslur til kvennanna fimm og námu greiðslurnar þrettán milljónum Bandaríkjadollara.

O’Reilly stýrði þættinum „The O'Reilly Factor“ á Fox stöðinni og var um að ræða vinsælasta þátt sjónvarpsstöðvarinnar. Eftir að fréttir bárust af ásökununum gáfu ýmis stórfyrirtæki það út að þau væru hætt að kaupa auglýsingar hjá Fox á tímum þar sem þáttur O'Reilly var á dagskrá.


Tengdar fréttir

Fox búið að reka Bill O'Reilly

Uppsögnin kemur stuttu eftir að fregnir bárust af því að fimm samstarfskonur O'Reilly hefðu sakað hann um að hafa áreitt sig kynferðislega á vinnustaðnum.

Fær meira áhorf eftir ásakanir um kynferðislega áreitni

Ásakanir um að hafa áreitt samstarfsmenn kynferðislega og fréttir um að hafa greitt viðkomandi samstarfsmönnum til að greina ekki frá áreitninni hafa ekki haft áhrif á áhorf á þátt bandaríska fréttamannsins Bill O'Reilly, The O'Reilly Factor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×