Erlent

Aukin hætta á heilablóðfalli og elliglöpum tengd neyslu á sykurlausum gosdrykkjum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er ekkert sérstaklega hollt að drekka mikið af gosi.
Það er ekkert sérstaklega hollt að drekka mikið af gosi. vísir/getty

Aukin hætta er á heilablóðfalli og elliglöpum ef einstaklingur neytir einnar dósar af sykurskertum eða sykurlausum gosdrykk á dag.

Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar sem fjallað er um á vef Guardian en fjöldi annarra rannsókna hafa sýnt fram á tengsl alvarlegra sjúkdóma og neyslu á sykruðum gosdrykkjum. Rannsóknin nú vekur á ný spurningar um áhættuna sem neytendur taka með því að drekka sykurskerta eða sykurlausa drykki en í þeim er gervisæta.

„Að drekka að minnsta kosti einn drykk á dag með gervisætu var tengt þrisvar sinnum meiri áhættu á því að fá heilablóðafall, elliglöp eða Alzheimer miðað við þá sem drukku einn slíkan drykk eða minna á viku,“ er haft eftir rannsakendunum á vef Guardian en þeir birtu niðurstöður sínar í tímariti bandarísku hjartasamtakanna.

Þannig eru þeir sem drekka svokallaða diet-drykki 2,96 sinnum líklegri til að fá svokallað blóðþurrðarslag og 2,89 sinnum líklegri til að fá Alzheimer. Blóðþurrðarslag verður þegar blóð kemst ekki að heilanum vegna blóðtappa sem hefur myndast annað hvort í slagæðinni sem leiðir til heilans eða í bláæð í heilanum sjálfum.

Rannsóknin byggir á gögnum frá meira en 4.300 þátttakendum í langtímahjartarannsókn sem er í gangi í Bandaríkjunum.

„Eftir því sem við komumst næst þá er rannsóknin okkar sú fyrsta sem sýnir fram á tengsl á milli daglegrar neyslu á gosdrykkjum með gervisætu og aukinnar hættu á bæði elliglöpum og svo Alzheimer-sjúkdómnum,“ segir rannsakendurnir.

Þeir viðurkenna þó að geta ekki sannað orsakasamband á milli þess að neyta diet-drykkja og svo þess að fá annað hvort heilablóðfall eða elliglöp þar sem rannsóknin byggðist á spurningalistum sem þátttakendur svöruðu um matar-og drykkjarvenjur sínar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira