Erlent

Öskureiði flugþjónninn hvatti farþega til slagsmála

Anton Egilsson skrifar
Flugþjóninum var heitt í hamsi.
Flugþjóninum var heitt í hamsi. Skjáskot
Myndband af reiðiskasti flugþjóns hjá bandaríska flugfélaginu American Airlines hefur farið eins og eldur í sinu um netheima í dag en í myndbandinu sést flugþjónninn meðal annars hvetja einn farþega til að slá sig.

Tildrög málsins voru þau að upp komu átök vegna barnavagns sem kona sem var farþegi í vélinni hafði meðferðis en hún var að ferðast með tveimur börnum sínum. Tók flugþjónninn sig til og hrifsaði barnvagninn af henni. Fór það ekki betur en svo að vagninn slóst í konuna með þeim afleiðingum að hún missti næstum því annað barn sitt úr höndunum.

Mikil reiði braust út í vélinni en í myndbandinu má sjá konuna standa hágrátandi með börn sín á meðan að farþegar hella sér yfir flugþjóninn.

Einn þeirra sagði þá við flugþjóninn að ef hann hefði gert þetta við hann þá hefði hann kýlt hann kaldann. Æstist flugþjónninn þá mikið upp og manaði hann til þess að koma og standa við stóru orðin. Eftir smá orðaskak róaðist farþeginn þó niður og settist aftur í sæti sitt.

Greint var frá því á Vísi fyrr í dag að flugfélagið hefði sagt flugþjóninum upp störfum í kjölfar málsins. Þá hefur flugfélagið jafnframt sent frá sér formlega afsökunarbeiðni til konunnar.

„Við erum miður okkar vegna þeirra þjáninga sem farþegi okkar og fjölskylda hennar varð fyrir,” segir í yfirlýsingu frá American Airlines.  

Myndbandið má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Starfsmanni American Airlines vikið úr starfi vegna barnavagns

Farþegi, sem náði eftirköstum atviksins á myndband, sagði að starfsmaður American Airlines hefði hrifsað barnavagninn með offorsi úr höndum móður, sem var einnig farþegi í flugvélinni, og næstum hæft barn hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×