Handbolti

Löwen upp í efsta sætið eftir öruggan sigur á botnliðinu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Alexander átti fínan leik.
Alexander átti fínan leik. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen náði efsta sætinu af Flensburg með öruggum 33-20 sigri á botnliði Coburg 2000 á heimavelli í þýska handboltanum í kvöld en Löwen er með eins stigs forskot á Flensburg þegar sex umferðir eru eftir.

Löwen var búið að vinna fimm leiki í röð og gat náð toppsætinu af Flensburg með sigri á heimavelli í dag.

Coburg skoraði fyrsta mark leiksins en eftir það var leikurinn í eign heimamanna sem náðu sex marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks í stöðunni 17-11.

Löwen bætti við forskotið eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og fagnaði að lokum öruggum þrettán marka sigri.

Guðjón Valur Sigurðsson hafði það náðugt í leiknum í kvöld og tók lítin þátt en Alexander Petersson var með tvö mörk fyrir Löwen. Markahæstur hjá Löwen var Kim Ekdahl með átta mörk í aðeins níu skotum.

Úrslit dagsins:

Wetzlar 24-23 Leipzig

Balingen-Weilstetten 27-27 Lemgo

Rhein-Neckar Löwen 33-20 Coburg 2000




Fleiri fréttir

Sjá meira


×