Viðskipti innlent

Óvíst hvort Núðluhúsið verði opnað aftur: Segir taílenskum mat standa ógn af hárri húsaleigu

Birgir Olgeirsson skrifar
Starfsfólk Núðluhússins.
Starfsfólk Núðluhússins. Vísir/GVA
„Vandamálið er að ég veit það ekki einu sinni sjálfur,“ segir Jón Haukdal Styrmisson spurður hvenær Núðluhúsið verður opnað aftur.

Núðluhúsið - Ruanthai hafði verið rekið á annarri hæð Kjörgarðs við Laugaveg 59 síðastliðin 10 ár. Miklar breytingar hafa staðið yfir á Kjörgarði í vetur þar sem nýrri hæð var komið á húsið og verða íbúðir á þriðju og fjórðu hæð þess.

Núðluhúsið fór út úr Kjörgarði 1. febrúar síðastliðinn en á annarri hæð Kjörgarðs var einnig rekin verslunin Storkurinn. Fyrirhugað er að nýr veitingastaður verði rekinn á annarri hæð Kjörgarðs.

Verslunarkjarninn Kjörgarður við Laugaveg 59 í Reykjavík.Vísir
Jón Haukdal er einn af eigendum Núðluhússins en 23 ár eru frá því að staðurinn var opnaður. Fyrstu þrettán árin var hann rekinn á Vitastíg en síðustu tíu ár í Kjörgarði.

„Við erum bara að leita að húsnæði,“ segir Jón Haukdal sem segir engar líkur á því að Núðluhúsið verði opnað aftur í sumar, en það gæti gerst í haust.

„Við erum bara að leita að húsnæði. Ég ætla ekki að segja 100 prósent, en stefnan er að opna aftur,“ segir Jón Haukdal. Hann segir eigendur Kjörgarðs hafa keypt eigendur Núðluhússins út úr fjögurra ára leigusamningi. 

Hann segir vandamálið við rekstur taílenskra veitingastaða að um sé að ræða ódýran mat sem þoli ekki þá háu húsaleigu sem er á höfuðborgarsvæðinu. „Húsaleigan eins og hún er í dag er bara rugl og það myndi þýða að við þyrftum að vera með matinn upp úr öllu valdi í verði og ég nenni ekki að standa í því.“

Ekki sé endilega verið að leita að húsnæði miðsvæðis, allt komi til greina. „Við erum alveg tilbúin að færa okkur eitthvað annað ef það er gott húsnæði á góðu verði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×