Körfubolti

Birna fékk leikbann fyrir sparkið | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birna Valgerður Benónýsdóttir spilar ekki leik fjögur.
Birna Valgerður Benónýsdóttir spilar ekki leik fjögur. vísir/eyþór
Aganefnd KKÍ úrskurðaði í gær Birnu Valgerði Benónýsdóttur, leikmann Keflavíkur, í eins leiks bann fyrir háttsemi sína í leik þrjú á móti Snæfelli um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta.

Birna, sem er aðeins 16 ára gömul, missti hausinn í baráttunni við reynsluboltann Gunnhildi Gunnarsdóttur í Stykkishólmi á sunnudaginn og sparkaði í mótherja sinn með þeim afleiðingum að hún var rekin út úr húsinu.

Málið var tekið fyrir á fundi aganefndar KKÍ en í skýrslu hennar segir: „Með vísan til ákvæðis c. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál, skal hin kærða, Birna Benónýsdóttir, leikmaður Keflavíkur, sæta eins leiks banni vegna háttsemi í leik Snæfells og Keflavíkur í úrslitakeppni úrvalsdeildar meistaraflokks kvenna sem leikinn var þann 23. apríl 2017.“

Eftir að vinna fyrstu tvo leikina átti Keflavík möguleika á að sópa seríunni og verða Íslandsmeistari í Stykkishólmi á sunnudaginn en meistarar síðustu þriggja ára, Snæfell, svöruðu fyrir sig með 68-60 sigri og staðan í einvíginu 2-1.

Fjórði leikurinn fer fram í Keflavík annað kvöld þar sem Litlu slátrararnir, eins og þetta unga Keflavíkurlið er kallað, fá annað tækifæri til að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

Þar verður liðið án Birnu Valgerðar sem skoraði tólf stig og tók 4,5 fráköst að meðtali á 20 mínútum í fyrstu tveimur leikjunum en hún var búin að skora sex stig og taka eitt frákast þegar hún var rekin af velli í Hólminum um helgina.

Þetta er vatn á myllu Snæfellsliðsins því Birna er einn besti varnarmaður deildarinnar en með sigri nælir Snæfell sér í oddaleik.

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×