Erlent

Skógarvörður hoppaði fram af þaki til að forðast árás hlébarða

Birgir Olgeirsson skrifar
Skógarvörður neyddist til að hoppa af húsþaki til að forðast árás hlébarða í Indlandi í síðustu viku.

India Express greindi frá því að hlébarðinn hefði farið inn í þorpið Kuruli nærri Kantabanji-skóginum. Þar hrelldi hann þorpsbúa í dágóðan tíma en endaði á að fara inn í byggingu í þorpinu sem varð til þess að skógarverðir brugðu á það ráð að reyna að króga hlébarðann af þar inni.

Það fór ekki betur en svo að hlébarðinn náði að koma sér upp á þak byggingarinnar þar sem hann veittist að skógarverðinum sem sá sér engan annan kost í stöðunni en að hoppa fram af þakinu til að forðast dýrið.

Tólf klukkustundum eftir að hlébarðinn hafði farið inn í þorpið náðu skógarverðir að handsama hann, en á þeim tíma hafði hlébarðinn sært þrjár manneskjur, þar á meðal skógarvörðinn sem hoppaði af þakinu.

Enginn hlaut lífshættulega áverka en hlébarðinn verður fluttur í Nandankana-dýragarðinn í Bhubaneswar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×