Innlent

Ólíkt svissneska kettinum fékk læðan Nuk að lifa þrátt fyrir að hafa komið ólöglega til landsins

Læðan Nuk og eigandi hennar Susanne Alsing.
Læðan Nuk og eigandi hennar Susanne Alsing.
Munurinn á meðhöndlun Matvælastofnunar á læðunni Nuk fyrir fjórum árum og meðhöndlun á svissneska kettinum, sem var aflífaður á Austurlandi í síðustu viku, hefur vakið athygli.

Svissnesk kona, sem kom með Norrænu til Seyðisfjarðar á þriðjudag síðustu viku, flutti kött ólöglega til landsins í húsbíl sínum. Lögreglumenn á Höfn fengu ábendingu frá sjálfstætt starfandi dýralækni í bænum um konuna sem fannst við Almannaskarð.

Konan var ein á ferð með köttinn en að beiðni héraðsdýralæknis var kötturinn tekinn og færður dýralækni sem sá um að aflífa dýrið og ráðstafa hræinu, eins og lög gera ráð fyrir, að beiðni Matvælastofnunar.

Læðan Nuk fékk ekki slíka meðhöndlun því Matvælastofnun leit málið þeim augum að eigandi hennar hefði ekki verið að reyna að flytja læðuna til landsins. Eigandi kattarins er dönsk kona en einkaflugvél hennar var millilent á Reykjavíkurflugvelli á leið hennar til Bandaríkjanna. Var litið á málið sem óhapp og því var í varúðarskyni gerð heilbrigðisskoðun á læðunni og tekin úr henni sýni til rannsókna.

Sjá einnig: Kötturinn Nuk fundinn: Ég er mjög hamingjusöm

Var það mat Matvælastofnunar að ekki þyrfti að fara fram á aflífun á dýrinu og var ákveðið að heimila eiganda læðunnar að fara með hana úr landi.

Eigandi svissneska kattarins hafði hins vegar ekki möguleika á að færa köttinn sinn til skoðunar og sýnatöku þar sem hann flutti köttinn ólöglega til landsins. Í tilviki svissneska kattarins var farið eftir því sem segir í lögum um innflutning dýra en þar kemur fram að dýrum, sem eru flutt inn til landsins án heimildar, skuli tafarlaust lógað og skrokkum eytt svo eigi stafi hætta af þeim.

Afar strangar reglur eru í gildi á Íslandi varðandi innflutning á lifandi dýrum. Sá sem ætlar að gera það þarf að sækja um innflutningsleyfi, uppfylla ýmis heilbrigðisskilyrði og svo þurfa dýr að fara í einangrun í fjórar vikur.

Stranglega bannað er að flytja lifandi dýr til landsins með Norrænu og eru farþegar skipsins látnir vita af því. Það er einungis heimilt að flytja lifandi dýr til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll þar sem þau eru skoðuð áður en þau fara í einangrun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×