Skoðun

Hvað tefur uppbyggingu ferðamannastaða og verndun náttúru?

Sveinn Runólfsson skrifar
Áfram er því spáð að ferðamönnum fjölgi, þó einstaka aðilar telji að heldur dragi úr aukningunni. Árið 2016 komu um 1,8 milljónir erlendra ferðamanna til landsins sem er 40% aukning frá árinu áður og á árinu 2017 er áætlað að þeir geti orðið 2,4 milljónir. Með sömu árlegri aukningu verða 6,6 milljónir gesta sem sækja okkur heim árið 2020 og 35 milljónir árið 2025! Höfum í huga að fyrir örfáum árum hefði verið hlegið að þeim sem hefðu spáð því að yfir tvær milljónir ferðamanna kæmu á þessu ári.

Almennt eru menn sammála um að náttúruperlur okkar séu ekki á neinn hátt undirbúnar til að taka á móti þessum fjölda. Sama er að segja um þjóðvegi landsins. Það sem helst gæti hægt á þessari ógnvænlegu þróun er síhækkandi verðlag og að með sofandahætti og græðgi höfum við átölulaust látið ferðaþjónustuna spilla náttúruauðlindum og skilja þær eftir í forarsvaði.

Hernám ferðaþjónustuaðila á náttúruperlum

Ferðaþjónustuaðilar hafa hernumið margar okkar fegurstu og viðkvæmustu náttúruperlur en hafa ekki sett fram formlegar tillögur um hvernig greinin vill nýta landið og eða til hvaða markhópa hin ólíku svæði eiga að höfða. Hundruð þúsunda heimsækja tiltölulega fáa staði og í sívaxandi mæli á öllum árstímum. Yfirleitt kemur ekki nein greiðsla frá ferðaþjónustuaðilum né gestum til landeigenda eða til verndar þessum stöðum. Ástand gróðurs og jarðvegs á mörgum stöðum er skelfilegt og er ástandið sérstaklega slæmt vor og haust. Útlitið var svart í hlýindaköflum í vetur þegar jörðin var ófrosin og haugblaut.

Víða eru rústuð vistkerfi, sérstaklega viðkvæmra mosavaxinna svæða og mannasaur og salernispappír svo langt sem augað eygir út frá mörgum áningarstöðum. Mörg þessara svæða eru í einkaeign og landeigendur fá ekki rönd við reist. Dreift eignarhald, t.d. sveitarfélaga eða ríkis annars vegar og einkaaðila hins vegar, hefur tafið uppbyggingu innviða eins og við Seljalandsfoss þó fjármagn sé fyrir hendi. Það eru líka takmörk fyrir því hvenær innviðir á fegurstu svæðunum rýra gildi þeirra. Ferðaþjónustan verður að skipuleggja ferðir sínar betur og dreifa álaginu á staði sem geta tekið við fleiri gestum, annars blasir við að stjórnvöld verða að takmarka fjölda gesta inn á einstök svæði.

Af hverju miðar svona hægt í innviðauppbyggingu?

Nú fara margar stofnanir og verkefni í a.m.k. fjórum ráðuneytum með málaflokkinn er lýtur að ferðamennsku og verndun landkosta. Þar af sjö stofnanir og a.m.k. tvö formleg verkefni í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Enn fremur eru a.m.k. jafn margar stofnanir og verkefni í öðrum ráðuneytum.

Talsverð náttúruvernd fer fram á vegum Umhverfisstofnunar á friðlýstum svæðum sem þekja um 20% af flatarmáli landsins en það er nánast engin náttúruvernd á um 80% af flatarmáli landsins. Þau svæði eru munaðarlaus. Stjórnsýsla náttúruverndar er veik og sundruð. Land í eigu ríkisins heyrir í dag undir þrjú ráðuneyti og níu undirstofnanir þeirra og lítið samstarf á milli þeirra. Er ekki kominn tími til að stofna ráðuneyti ferðamála er hefði það að meginmarkmiði að tryggja sjálfbærni í ferðaþjónustunni, en því fer víðs fjarri að hún geti státað af því í dag?

Litlar og vanmáttugar stofnanir í umhverfisgeiranum

Það er grafalvarleg staða að stofnanir í umhverfisgeiranum sem fjalla um verndun auðlinda landsins eru smáar og vanmáttugar. Samstarfið á milli þeirra er takmarkað en samkeppni hörð um þær krónur sem til málaflokksins falla á hverju ári á fjárlögum. Umhverfisstofnunin er sú stærsta í þessum málaflokki, en þar eru aðeins örfáir starfsmenn sem sinna náttúruvernd. Stjórnkerfi hennar er hálf lamað þar sem það byggir á teymum sem fjalla um hina ýmsu málaflokka. Ákvarðanataka er seinvirk og framkvæmdir taka alltof langan tíma. Krafturinn fer í skriffinnsku og fundahöld en ekki í að byggja upp ferðamannastaði.

Annað dæmi sem vert er að nefna er Vatnajökulsþjóðgarður sem býr við það úrelta fyrirkomulag að þar er stjórn, en stjórn yfir ríkisstofnunum á engan tilverurétt nú á tímum. Stjórn er fullkomlega óþarfur milliliður á milli ráðuneytis og yfirstjórnar stofnana. Afleiðing fyrirkomulagsins er óskýr ábyrgð og árekstrar.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er þó jákvæð undantekning. Þar á bæ hafa menn svo sannarlega tekið til hendinni við gríðarlega erfiðar aðstæður og tekist ótrúlega vel við takast á við endalausan straum ferðamanna. Ferðaþjónustan hrúgar þangað m.a. skipsförmum frá skemmtiferðaskipum og öðrum gestum allan ársins hring og ætlast til að þeim verði sinnt í hvaða veðri sem er. En samt eru þar skemmdir á viðkvæmri náttúru.

Frumskógakerfi friðlýstra svæða

Það þarf að samhæfa krafta stofnana í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Þjóðgarðssvæðin eru vistuð á þrem stöðum/stofnunum. Almenningur og starfsfólk annarra verndarstofnana skilur hvorki upp né niður í þeirri uppbyggingu. Þær raddir heyrast æ oftar að brýnt sé að stofna eina allsherjar Þjóðgarðastofnun sem fari með málefni þjóðgarðanna og annarra friðlýstra svæða þ.m.t. þjóðskóganna og Dimmuborga o.s.frv. Ljóst er að æ erfiðara reynist að ná samkomulagi við landeigendur um hvers konar friðlýsingu. Markmið þessa sameiningarferils ætti að vera í senn að samræma, efla og auka sjálfbæra landnýtingu og bæta ásýnd landsins, jafnframt landslagsvernd þar sem hún á við og efla fræðslu um þessi mál. Þegar Þjóðgarðastofnunin hefur náð fótfestu er brýnt að hún sameinist nýrri stofnun, það er Auðlindastofnun.

Auðlindastofnun

Á undanförnum árum hafa erlendir og innlendir sérfræðingar gert tillögur um breytta skipan stofnana í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Þeir hafa m.a. lagt ríka áherslu á að málaflokkar er lúta að verndun og endurheimt auðlinda landsins, jarðvegs, gróðurs, vatns og náttúru yrðu sameinaðir í eina stofnun líkt og í Bandaríkjunum og Ástralíu.

Hér þarf að fara sömu leið og stofna Auðlindastofnun er fari með verndun og endurheimt auðlinda landsins, gróðurs, jarðvegs og ferskvatns. Stofnunin hefði yfirumsjón með verkefnum á sviði landgræðslu, skógræktar, náttúruverndar, landslagsverndar en einnig endurheimt og verndun votlendis og annarra vistkerfa. Stofnanir ráðuneytisins eru með fjölda útibúa eða starfsstöðva víðs vegar um landið. Nær ekkert samstarf er á milli þeirra. Í alltof mörgum tilvikum eru þetta einmenningssetur, sem erfitt er að manna. Brýnt er að efla starfstöðvarnar og samhæfa.

Úrbætur

Ýmislegt hefur þó verið gert af hálfu stjórnvalda til að takast á við þennan gríðarlega umhverfisvanda sem ferðamennskan veldur. Þar á meðal er stofnun Ferðamálastofu og í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka vægi ferðaþjónustunnar í stjórnsýslunni verða málefni ferðamála færð úr einni skúffu í iðnaðarráðneytinu yfir í nýja skrifstofu innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem eingöngu mun sjá um málefni ferðaþjónustunnar.

Síðasta ríkisstjórn kynnti ferðamálastefnu þar sem gert var ráð fyrir að sameina þjóðgarða, friðlýst svæði og þjóðlendur. Ekkert bólar á framkvæmd þeirrar sameiningar. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið fékk einnig samþykkt á Alþingi á sl. ári, landsskipulagsstefnu 2015-2026 og lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Margt hefur því áunnist í að auka vægi ferðamennskunnar. Mikið skeggrætt á Alþingi, í ráðuneytum og stofnunum en minna fer fyrir því að hrinda verkefnum í framkvæmd. Þá skortir reynslu og þekkingu til að framkvæma verkefni á sviði uppbyggingar innviða og má nefna alvarlegan skort á fagþekkingu við stígagerð sem dæmi, þar sem fyrirliggjandi náttúruleg efni eru ekki nýtt sem skyldi. Það eru víða verk að vinna.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×