Viðskipti innlent

Össur hagnaðist um 1,1 milljarð króna

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Anton
Hagnaður Össurar var 1,1 milljarður króna á fyrsta ársfjórðungi ársins og jókst hann um þrettán prósent á milli ára. Allt í allt voru sölutekjur fyrirtækisins á tímabilinu 14,7 milljarðar króna sem er aukning um sautján prósent.

„Við erum ánægð með niðurstöðu fyrsta ársfjórðungs sem sýnir góðan innri vöxt og stöðuga arðsemi, en fyrsti ársfjórðungur er jafnan sá slakasti á árinu hjá okkur. EMEA og APAC sýndu góðan vöxt í fjórðungum og sala á stoðtækjum gekk vel í Ameríku. Söluvöxtur á heimsvísu var drifin áfram af hágæða vörunum okkar. Samþætting vegna kaupa á Touch Bionics og Medi Prosthetics gengur samkvæmt áætlun og erum við spennt að sjá þau dafna,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar í tilkynningu.

Samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri fyrirtækisins var EBITDA 2,3 milljarðar króna. Það er aukning um 26 prósent, sé mælt í staðbundinni mynt.

Rekstraráætlun fyrirtækisins fyrir 2017 gerir ráð fyrir söluvexti upp á sjö til átta prósent og innri söluvexti um fjögur til fimm prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×