Fótbolti

Guðlaugur Victor eftirsóttur víða um Evrópu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson hefur spilað vel sem fyrirliði Esbjerg.
Guðlaugur Victor Pálsson hefur spilað vel sem fyrirliði Esbjerg. vísir/getty
Guðlaugur Victor Pálsson, fyrirliði Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta, er mjög líklega á leið frá liðinu þegar að tímabilinu lýkur en áhugi á honum er mikill víðsvegar um Evrópu, samkvæmt heimildum Vísis.

Stærri lið á Norðurlöndum eru mjög áhugasöm um að fá Victor, sem getur bæði leikið á miðjunni sem og í miðverði, til liðs við sig og þá er einnig áhugi frá liðum í 2. deildinni í Þýskalandi sem og í Póllandi, Sviss, Austurríki og í Belgíu.

Þrátt fyrir að Esbjerg hafi ekki gengið vel á tímabilinu í dönsku úrvalsdeildinni hefur Guðlaugur Victor verið að spila mjög vel en þessi 25 ára gamli miðjumaður kom til liðsins frá Helsingborg fyrir tveimur árum.

Þessi fyrrverandi leikmaður Liverpool hefur einnig spilað með Hibernian í Skotlandi, New York Red Bulls í Bandaríkjunum og NEC Nijmegen í Hollandi.

Guðlaugur Victor hefur verið viðloðinn íslenska landsliðið undanfarin ár en hann á sex leiki að baki með strákunum okkar. Síðast spilaði hann fyrir Ísland á móti Síle í Kínabikarnum í janúar þar sem hann var í byrjunarliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×