Viðskipti innlent

„Afkoma greinarinnar fer hratt versnandi“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Samtök ferðaþjónustunnar segja að fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts á fyrirtæki í ferðaþjónustu fari gegn lögum um opinber fjármál og gangi í berhögg við sjónarmið um meðalhóf við hækkun skatta. Framkvæmdastjóri samtakanna segir afkomu fyrirtækja í greininni fara hratt versnandi.

Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til fimm ára sem lögð var fram á Alþingi 31. mars verða flestar atvinnugreinar í ferðaþjónustu felldar undir efra þrep virðisaukaskatts frá og með 1. júlí á næsta ári og mun virðisaukaskattur þeirra þá hækka úr 11 prósentum í 24 prósent. Frá 1. janúar 2019 mun efra þrepið síðan lækka úr 24 prósentum í 22,5 prósent. 

Samtök ferðaþjónustunnar birtu í dag gagnrýna samantekt um þessi áform. Samtökin segja að ekkert samráð hafi verið haft við fyrirtæki í ferðaþjónustu áður en hækkunin var kynnt og engin greining hafi farið fram á áhrifum hennar á atvinnugreinina. Svona snörp hækkun skattsins gangi jafnframt gegn ákvæðum laga um um opinber fjármál og gegn sjónarmiðum um meðalhóf við skattahækkanir. Þá verði neikvæð áhrif hækkunarinnar mest á landsbyggðinni.

Almennt þrep í virðisaukaskatti er 24 prósent. Það þýðir að öll vara og þjónusta sem er skattskyld í lögunum ber 24 prósenta virðisaukaskatt nema annað komi fram í lögunum. Hver er þá sanngirnin í því að ferðaþjónustan, sú atvinnugrein sem skapar mest verðmæti fyrir þjóðarbúið, sé áfram á undanþágu í neðra þrepi skattsins?

„Við erum útflutningsatvinnugrein og útflutningsatvinnugreinar á Íslandi greiða ekki virðisaukaskatt inn til samfélagsins nema ferðaþjónustan. Hins vegar er það eðlilegt og ástæður fyrir því. Við teljum mjög mikilvægt að við séum í sama þrepi og samkeppnislöndin,“ segir Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. 

Helga segir að ferðaþjónustan sé ekki að renna blint í sjóinn með sína gagnrýni. Hún byggist á greiningum og könnun meðal félagsmanna.

„Afkoma greinarinnar fer hratt versnandi. Það er það sem kemur manni á óvart vegna mikillar fjölgunar ferðamanna. Skýringin er sú að rekstrarskilyrði ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi hafa versnað til muna nú þegar. Þess vegna er ekki viðbótarþol fyrir skattahækkunum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×