Viðskipti innlent

Nýtt leikjafyrirtæki Þorsteins í QuizUp

Sæunn Gísladóttir skrifar
Þorsteinn ætlar að stofna fyrirtæki með samstarfsmönnum úr QuizUp, Gunnari Hólmsteini Guðmundssyni og Ými Finnbogasyni.
Þorsteinn ætlar að stofna fyrirtæki með samstarfsmönnum úr QuizUp, Gunnari Hólmsteini Guðmundssyni og Ými Finnbogasyni. vísir/vilhelm
Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi Plain Vanilla, vinnur nú að stofnun nýs fyrirtækis sem samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun starfa í leikjageiranum. Þorsteinn stofnaði Plain Vanilla árið 2010 en fyrirtækið þróaði meðal annars leikinn vinsæla QuizUp.

„QuizUp var selt út til Bandaríkjanna núna um áramótin og í rauninni lauk mínum afskiptum af QuizUp þá, það eru komnir nokkrir mánuðir síðan og það er kannski eðlilegt að maður sé að pæla í því hvað næsta verkefni verði. Það er rétt að ég er að skoða það, ég ætla ekki að segja að það sé leikjafyrirtæki, en við erum með ýmislegt í bígerð sem við erum að skoða núna,“ segir Þorsteinn.

Í apríl 2016 var greint frá því að fjárfest hefði verið í Plain Vanilla fyrir um fimm milljarða króna frá stofnun þess. Fyrirtækið sendi svo frá sér tilkynningu í lok ágúst á síðasta ári þess efnis að skrifstofu þess í Reykjavík yrði lokað. Öllum 36 starfsmönnum fyrirtækisins var sagt upp. Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að NBC hætti við framleiðslu á þáttum byggðum á leiknum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Þorsteinn tekið á leigu húsnæði undir nýja fyrirtækið á Laugavegi 26 en þar er meðal annars til húsa auglýsingastofan Jónsson & Le’macks. „Ég er ekki að kaupa neina fasteign en við höfum verið að leita að húsnæði undir þetta nýja verkefni,“ segir hann.

Þorsteinn segist ekki að svo stöddu geta sagt meira um verkefnið eða hverjir standi að því með honum. En samkvæmt heimildum eru það meðal annars Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, sem var starfsmannastjóri (COO) hjá Plain Vanilla, og Ýmir Finnbogason, sem var fjármálastjóri hjá Plain Vanilla.

„Ég er búinn að taka mér ágætis frí eftir rússíbanann í kringum QuizUp, ég er bara aðeins að skoða nokkur tækifæri og meta það. Það er skemmtilegt. Skemmtilegasti hlutinn í þessu frumkvöðlastarfi er að kasta fram hugmyndum og pæla í hvernig sé hægt að búa til verðmæti,“ segir Þorsteinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×