Enski boltinn

Blað í Síle segir líklegast að Alexis Sánchez fari til Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sánchez.
Alexis Sánchez. Vísir/Getty
Samkvæmt fréttum frá heimalandi hans Síle þá lítur út fyrir að Manchester City sé líklegast liðið til að ná í Alexis Sánchez í sumar.

Blaðið Cooperativa í Síle segir frá þessu í dag og ber þar til baka fréttir ensku miðlanna um að mestar líkur væri á því að Alexis Sánchez færi í Chelsea.

Alexis Sánchez er með samning við Arsenal til ársins 2018 en allt bendir til þess að hann verði seldur í sumar þar sem hann hefur ekki viljað gera nýjan samning.

Blaðamaður Cooperativa segir að vel fari á með Alexis Sánchez og Josep Guardiola, fyrrum þjálfara hans hjá Barcelona. Það var einmitt Guardiola sem keypti Alexis Sánchez árið 2011. Pep gæti því endurtekið leikinn í sumar.

Alexis Sánchez er 28 ára gamall en Manchester City er tilbúið að borga 50 milljónir punda fyrir hann. Hvort að það sé nóg verður hinsvegar að koma í ljós.

Alexis Sánchez er heimsklassa leikmaður sem hefur skoraði 18 deildarmörk fyrir Arsenal á þessu tímabili sem er það mesta á einu tímabili á hans þremur tímabilum í Englandi.

Enskir fjölmiðlar hafa skrifað mikið um óánægju Alexis Sánchez á þessu tímabili en lítið hefur gengið hjá Arsenal og mörgum finnst metnaður og keppnisskap Sílemannsins ekki eiga sér samleið með öðrum leikmönnum Arsenal-liðsins.

Arsenal tapaði 3-0 á móti Crystal Palace í gær og er nú í mikilli hættu á að missa af Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Manchester City er hinsvegar í allt öðrum og betri málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×