Viðskipti innlent

Erlendir fjárfestar mæta til leiks

Sæunn Gísladóttir skrifar
Frá ársbyrjun 2017 hafa erlendir fjárfestar komið með meiri fjármuni í skráð hlutabréf Kauphallar Íslands en allt árið 2016.
Frá ársbyrjun 2017 hafa erlendir fjárfestar komið með meiri fjármuni í skráð hlutabréf Kauphallar Íslands en allt árið 2016. vísir/stefán
Á fyrstu þremur mánuðum árs 2017 var nýfjárfesting erlendra aðila meiri en allt árið 2016. Fjárstreymistæki (bindiskylda) færði áherslu af skuldabréfamarkaði og inn á hlutabréfamarkað og áhuga útlendra fjárfesta á innlendum hlutabréfamarkaði virðist stóraukast við skref til afnáms hafta. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Arion banka.

Í henni kemur fram að fjárfestingar útlendinga á innlendum hlutabréfamarkaði hafi aukist verulega á síðustu mánuðum. Frá ársbyrjun 2017 hafa erlendir fjárfestar komið með meiri fjármuni í skráð hlutabréf en allt árið 2016.

16 milljarða arður

Útlit er fyrir að félög sem skráð eru í Kauphöll Íslands greiði samtals um 16 milljarða króna í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2016 sem er um 18 prósent lækkun á arðgreiðslum frá árinu á undan. Arðgreiðsluhlutfall markaðarins er um 1,8 prósent.  Arðgreiðslur hafa lækkað síðastliðin tvö ár sem hlutfall af markaðsvirði.

Vægi félaga sem byggja á íslenskri eftirspurn fer vaxandi og þau greiða hærra hlutfall hagnaðar í arð. Séu kaup á eigin bréfum tekin með í myndina má áætla að greiðslur til hluthafa geti numið allt að 26 milljörðum króna. 

Þrátt fyrir slaka ávöxtun í fyrra hafa skráð íslensk hlutabréf skilað góðri ávöxtun frá endurreisn markaðarins.

Hluthöfum fækkaði í fyrsta sinn frá endurreisn

Samtals eru félög í Kauphöll Íslands með 23 þúsund hluthafa. Árið 2016 fækkaði hluthöfum í skráðum félögum um 6 prósent. Þetta var í fyrsta sinn sem hluthöfum fækkaði frá endurreisn fjármálakerfisins. Sé horft framhjá skráningu Skeljungs fækkaði hluthöfum um 13 prósent. Smám saman fækkar hluthöfum í kjölfar stórra útboða.

Stóraukinn þjóðhagslegur sparnaður virðist ekki skila sér í auknum fjárfestingum almennings á innlendum verðbréfamarkaði . Innlendur sparnaður leitar annað. Peningamarkaðssjóðir hafa vaxið í umfangi svo almenningur virðist leita í styttri tíma eignir. Eignir peningamarkaðssjóða námu 193 milljörðum króna í febrúar 2017 samanborið við 105 milljarða króna ári áður. Að sama skapi hafa heimili minnkað hlutdeild sína í hlutabréfasjóðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×