Erlent

United Airlines hyggst breyta um verklag við bókanir farþega

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Læknirinn fékk heilahristing, nefbrotnaði auk þess sem hann missti tvær tennur.
Læknirinn fékk heilahristing, nefbrotnaði auk þess sem hann missti tvær tennur.
United Airlines mun kynna til sögunnar breytingar á stefnu sinni er varðar bókanir á áhafnarmeðlimum flugfélagsins, eftir að myndband af hörkulegri meðferð á farþega, sem dreginn var út úr vél félagsins, vakti heimsathygli. Guardian greinir frá.

Umrætt atvik kom upp þegar flugfélagið bókaði of marga farþega í flugvél og var dregið á það ráð að velja farþega af handahófi til þess að reka úr vélinni.

Læknirinn, David Dao, var einn þeirra og neitaði hann að yfirgefa sæti sitt, vinnu sinnar vegna og var hann þá dreginn út úr vélinni, með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði, fékk heilahristing og missti tvær tennur.

Sjá einnig: Flugvélin yfirbókuð og læknirinn sturlaðist

Samkvæmt nýrri stefnu flugfélagsins verður áhafnarmeðlimum nú tryggt sæti um borð í vélum félagsins, að minnsta kosti klukkustund fyrir flugtak, til þess að koma í veg fyrir að henda þurfi farþegum út, líkt og gerðist í tilviki læknisins.

Flugfélagið hefur átt erfitt uppdráttar eftir að myndband af atvikinu lak á netið, en hlutabréf í móðurfélagi þess tóku meðal annars dýfu. Félagið hefur róið að því öllum árum að lagfæra ímynd sína í kjölfarið. Varð forstjóri félagsins meðal annars að biðjast afsökunar, einungis degi eftir að hafa sagt áhöfn flugvélarinnar hafa verið í fullum rétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×