Erlent

Mike Pence: Þolinmæði Bandaríkjanna í garð Norður-Kóreu að bresta

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna og Hwang Kyo-ahn, starfandi forseti Suður-Kóreu.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna og Hwang Kyo-ahn, starfandi forseti Suður-Kóreu.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, segir að sú tíð sé liðin að Bandaríkjamenn sýni Norður-Kóreu þolinmæði.

Pence lét orðin falla í heimsókn í herlausa beltið á landamærum Norður- og Suður-Kóreu. Pence var þar í heimsókn til að leggja áherslu á  samband Bandaríkjanna og Suður Kóreu, en mikil spenna ríkir nú á Kóreuskaga og hafa Norður-kóreumenn sagst vera við öllu búnir, reyni Bandaríkjamenn nokkuð.

Á blaðamannafundi með Hwang Kyo-ahn, starfandi forseta Suður-Kóreu, sagði Pence að fyrri ríkisstjórn Bandaríkjanna hefði sýnt flugskeyta og kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu þolinmæði en að sú tíð væri nú liðin. „við erum 100% á ykkar bandi,“ sagði Pence.

Norður-Kóreumenn hafa áður sprengt kjarnasprengjur, eða alls fimm sinnum, í tilraunaskyni. Samkvæmt hermálayfirvöldum Suður-Kóreu var ætlunin nú að gera slíkt hið sama, en tilraunin á að hafa misheppnast og er nú málið rannsakað. 

Í gær sagði H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Donalds Trump, að yfirvöld í Kína og Bandaríkjunum séu að ræða ýmsa möguleika um hvernig bregðast megi við ástandinu á Kóreuskaga.


Tengdar fréttir

Bandaríkin og Kína ræða möguleg viðbrögð vegna Norður-Kóreu

H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Donalds Trump, segir að yfirvöld í Kína og Bandaríkjunum séu sammála um að ástandið á Kóreuskaga geti ekki haldið áfram óbreytt. Hann segir löndin vera að ræða ýmsa möguleika um hvernig bregðast megi við eldflauga og kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu.

Kínverjar uggandi yfir ástandinu á Kóreuskaga

Utanríkisráðherra Kína segir að átök gætu brotist út hvað úr hverju. Kínverjar skora á alla aðila að auka spennuna ekki. Bandaríkin sigla upp að Kóreuskaga og hafa sýnt mátt sinn undanfarið. Átök gætu leitt til flóttamannstraums.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira