Erlent

Mike Pence: Þolinmæði Bandaríkjanna í garð Norður-Kóreu að bresta

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna og Hwang Kyo-ahn, starfandi forseti Suður-Kóreu.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna og Hwang Kyo-ahn, starfandi forseti Suður-Kóreu.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, segir að sú tíð sé liðin að Bandaríkjamenn sýni Norður-Kóreu þolinmæði.

Pence lét orðin falla í heimsókn í herlausa beltið á landamærum Norður- og Suður-Kóreu. Pence var þar í heimsókn til að leggja áherslu á  samband Bandaríkjanna og Suður Kóreu, en mikil spenna ríkir nú á Kóreuskaga og hafa Norður-kóreumenn sagst vera við öllu búnir, reyni Bandaríkjamenn nokkuð.

Á blaðamannafundi með Hwang Kyo-ahn, starfandi forseta Suður-Kóreu, sagði Pence að fyrri ríkisstjórn Bandaríkjanna hefði sýnt flugskeyta og kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu þolinmæði en að sú tíð væri nú liðin. „við erum 100% á ykkar bandi,“ sagði Pence.

Norður-Kóreumenn hafa áður sprengt kjarnasprengjur, eða alls fimm sinnum, í tilraunaskyni. Samkvæmt hermálayfirvöldum Suður-Kóreu var ætlunin nú að gera slíkt hið sama, en tilraunin á að hafa misheppnast og er nú málið rannsakað. 

Í gær sagði H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Donalds Trump, að yfirvöld í Kína og Bandaríkjunum séu að ræða ýmsa möguleika um hvernig bregðast megi við ástandinu á Kóreuskaga.


Tengdar fréttir

Bandaríkin og Kína ræða möguleg viðbrögð vegna Norður-Kóreu

H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Donalds Trump, segir að yfirvöld í Kína og Bandaríkjunum séu sammála um að ástandið á Kóreuskaga geti ekki haldið áfram óbreytt. Hann segir löndin vera að ræða ýmsa möguleika um hvernig bregðast megi við eldflauga og kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu.

Kínverjar uggandi yfir ástandinu á Kóreuskaga

Utanríkisráðherra Kína segir að átök gætu brotist út hvað úr hverju. Kínverjar skora á alla aðila að auka spennuna ekki. Bandaríkin sigla upp að Kóreuskaga og hafa sýnt mátt sinn undanfarið. Átök gætu leitt til flóttamannstraums.
Fleiri fréttir

Sjá meira