Fótbolti

Notar þvaglegg og pissaði blóði eftir æfingar og leiki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Saúl hefur glímt við nýrnavandamál.
Saúl hefur glímt við nýrnavandamál. vísir/getty
Saúl Níguez, leikmaður Atlético Madrid, hefur notað þvaglegg undanfarin tvö tímabil og pissaði blóði eftir allar æfingar og leiki.

Saúl hefur glímt við nýrnavandamál í tvö ár, eða eftir að hann fékk spark í magann í leik Atlético og Bayer Leverkusen í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu 2015.

Saúl lá á spítala í Þýskalandi í fjóra daga og var frá í um sex vikur í kjölfarið. Svo virtist sem Saúl væri batnað en sú var ekki raunin.

„Undanfarin tvö tímabil hef ég notað þvaglegg og eftir hvern leik eða æfingu pissaði ég blóði. Þetta var svo sannarlega ekki auðvelt fyrir mig,“ sagði Saúl í samtali við spænsku sjónvarpsstöðina Mega.

„Ég tók áhættu með heilsuna en var drifinn áfram af viljanum að spila fyrir Atlético,“ bætti miðjumaðurinn öflugi við.

Saúl, sem er 22 ára, hefur leikið 44 leiki með Atlético í vetur og skorað fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×